Erlent

Indverskar borgir þær menguðustu á jörðinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Útblástur frá bifreiðum og mengun frá byggingarsvæðum á ekki síst þátt í menguninni í Nýju Delí.
Útblástur frá bifreiðum og mengun frá byggingarsvæðum á ekki síst þátt í menguninni í Nýju Delí. Vísir/AFP
Nýja Delí á Indlandi er mengaðasta stórborg í heimi eftir að kínversk yfirvöld gripu til aðgerða til að draga úr loftmengun samkvæmt greiningu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Níu af hverjum tíu jarðarbúum anda að sér menguðu lofti og um sjö milljónir manna deyja árlega af völdum mengunar í lofti.

Greining WHO nær til borgar með fleiri en fjórtán milljónir íbúa frá árinu 2010 til 2016. Höfuðborgarsvæði Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, er næstmengaðasta borgin með tilliti til stærra svifryks (PM10), og Dakka, höfuðborg Bangladess, í því þriðja. Önnur indversk stórborg, Múmbaí, er í fjórða sætinu.

Indverskar borgir eru einnig í sérflokki hvað varðar fínna svifryk (PM2,5). Fjórtán af fimmtán menguðustu borgunum í þeim flokki eru á Indlandi, samkvæmt frétt Washington Post.

Flest dauðsföllin af völdum loftmengunar eru í Asíu og Afríku. Þar af látast 3,8 milljónir manna vegna lélegra loftgæða innandyra af völdum lélegrar eldunaraðstöðu. Það er sagt sérstaklega mikið vandamál á Indlandi. Mengunin leiðir til ýmissa sjúkdóma eins og hjartaáfalla, hjartasjúkdóma, lungnakrabbameins og öndunarfærasjúkdóma og sýkinga.

Aðgerðirnar hafa bitnað á snauðu fólki

Kínverska borgin Beijing er nú í fimmta sæti en hefur lengi verið talin ein mengaðasta borgin á jörðinni. Yfirvöld í Kína hafa gripið til aðgerða eins og að loka eða breyta verksmiðjum og draga úr kolanotkun til að létta á mengunarskýjunum sem hafa legið yfir mörgum borgum þar.

Hreinsun loftsins þar er þó hafa kostað sitt. Þannig hafi fátæku fólki verið bannað að nota kol til að ylja sér að vetri eða það misst vinnuna.

WHO hvetur indversk stjórnvöld engu að síður til þess að feta í fótspor Kínverja þar sem stjórnvöld hafi tekið mengunina föstum tökum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×