Erlent

Forseti Palestínu segir gyðinga hafa kallað yfir sig helförina sjálfir

Kjartan Kjartansson skrifar
Í níutíu mínútna sjónvarpsávarpi á mánudag gaf Abbas í skyn að gyðingar hafi kallað helförina yfir sig sjálfir með hegðun sinni í Evrópu.
Í níutíu mínútna sjónvarpsávarpi á mánudag gaf Abbas í skyn að gyðingar hafi kallað helförina yfir sig sjálfir með hegðun sinni í Evrópu. Vísir/AFP
Okur og bankastarfsemi var ástæðan fyrir gyðingaandúð í Evrópu sem leiddi á endanum til helfarar nasista gegn þeim. Þetta var boðskapur Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, til samlanda sinna í sjónvarpsávarpi á mánudag.

Abbas staðhæfði að fullyrðingar sínar byggðust á skrifum rithöfunda úr röðum gyðinga um að andúð á þeim hafi ekki byggst á trú þeirra heldur athöfnum þeirra í samfélaginu, að því er segir í frétt Washington Post.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Abbas lýsir vafasömum skoðunum um helförina. Í doktorsritgerð sinni setti hann spurningamerki við að sex milljónir gyðinga hefðu raunverulega verið drepnar í helförinni. Þá hefur hann haldið því fram að síonistar og nasistar hafi unnið saman að því að senda gyðinga til landsvæðisins sem nú er Ísrael.

Ummæli Abbas nú hafa vakið harða gagnrýni. Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, tísti um að Abbas hefði enn og aftur endurtekið „fyrirlitlegustu gyðingahatursskröksögurnar“. Sakaði hann Abbas um „algera fáfræði“ og „blygðunarlausa ósvífni“.

Fulltrúar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafa einnig fordæmt ávarp Abbas og sagt skoðanir hans á helförinni óviðunandi.

„Orðræða af þessu tagi verður aðeins vopn í höndum þeirra sem vilja ekki tveggja ríkja lausn, sem Abbas forseti hefur ítrekað talað fyrir,“ sagði utanríkisþjónusta Evrópusambandsins í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×