Innlent

Útvarpsstjóri stendur við sáttagreiðslu í fréttamáli

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Magnús Geir Þórðarson.
Magnús Geir Þórðarson. Fréttablaðið/Stefán

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir RÚV fagna því að Sigmundur Ernir Rúnarsson hafi verið sýknaður í meiðyrðamáli sem Guðmundur Spartakus Ómarsson höfðaði gegn honum.

Magnús telur þó að mál Sigmundar Ernis og það mál sem Guðmundur höfðaði gegn RÚV hafi verið ólík í eðli sínu og telur enn að það hafi verið rétt ákvörðun að greiða honum 2,5 milljónir króna til að ljúka málinu utan dómstóla.

Líkt og fram hefur komið var Sigmundi Erni stefnt vegna greinar á vef Hringbrautar sem byggðist að stórum hluta á umfjöllun RÚV um meinta aðkomu Guðmundar að fíkniefnaviðskiptum í Brasilíu og Paragvæ.

Í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins segir Magnús Geir að niðurstaða Hæstaréttar í málinu grundvallist á því að frétt Hringbrautar hafi verið frétt um fréttaflutning annarra fjölmiðla.

„Mál RÚV er frábrugðið þessu máli um það veigamikla atriði að tiltekinn hluti ummælanna var ekki endursögn á öðrum fréttaflutningi og hefur í raun þegar að einhverju marki verið leiðréttur. “

Mat lögfræðinga RÚV hafi verið að umtalsverðar líkur stæðu til að tilteknar kröfur Guðmundar næðu fram að ganga.

„Því var það mat lögfræðinga RÚV að ljúka málinu með sátt, fremur en áframhaldandi málarekstri eftir atvikum á tveimur dómstigum.“

Upphæð sáttarinnar hafi þá verið metin nálægt því sem RÚV hefði þurft að greiða í málskostnað, skaðabætur og eigin kostnað við málareksturinn.


Tengdar fréttir

RÚV-sátt dýrari en allir meiðyrðadómar undanfarinna ára

Dýrasti meiðyrðamálsdómur sem fallið hefur fyrir héraðsdómi síðastliðin fimm ár kostaði hina stefndu um tvær milljónir króna í miskabætur, málskostnað og kostnað við birtingu niðurstöðu dómsins.

RÚV taldi ódýrara að greiða Guðmundi Spartakus 2,5 milljónir króna

Forsvarsmenn Ríkisútvarpsins mátu það svo að staða þeirra fyrir dómi væri veik og hagstæðara væri að greiða Guðmundi Spartakusi Ómarssyni 2,5 milljónir króna til að losna við meiðyrðamál hans. RÚV hefur ekki áður greitt fyrir að komast hjá málshöfðun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×