Menning

Glæpasagan er frábær til þess að skoða samfélagið

Magnús Guðmundsson skrifar
Börkur Sigþórsson segir að tónlistarmyndbönd og auglýsingagerð hafi reynst honum góður skóli í kvikmyndagerð.
Börkur Sigþórsson segir að tónlistarmyndbönd og auglýsingagerð hafi reynst honum góður skóli í kvikmyndagerð. Fréttablaðið/Anton Brink

Þó að sumarið virðist ætla að láta bíða dálítið eftir sér á Íslandi þessi dægrin er ekkert lát á íslenska kvikmyndavorinu. Í íslenskri kvikmyndagerð er reyndar löngu komið hásumar enda mikið framleitt og frumsýnt af nýju og vönduðu efni af ýmsum toga. Nýjasta viðbótin er kvikmyndin Vargur í leikstjórn Barkar Sigþórssonar og framleiðslu RKV Studios. Þó að Börkur hafi lengi fengist við kvikmyndagerð er þetta hans fyrsta leikna kvikmynd í fullri lengd en hann var byrjaður að fást við leikstjórn strax fyrir tvítugt.

„Ég byrjaði á því að leikstýra tónlistarmyndböndum og fór snemma til Bretlands þar sem ég var að vinna við að gera bæði tónlistarmyndbönd og auglýsingar, auk þess að fást við stuttmyndagerð þess á milli. Í kjölfarið á því var mér boðið að taka að mér leikstjórn í Ófærð þar sem ég leikstýrði tveimur þáttum sem var hentugt vegna þess að þá var handritið að kvikmyndinni fullmótað og ég búinn að semja við framleiðendur. Að auki fór ég út og gerði þátt í seríu sem kallast Endeavour hjá ITV og það er að landa mér verkefni hjá BBC. Þannig að þetta hefur verið að koma svona eitt af öðru, boltinn er að rúlla,“ segir Börkur léttur.

Starf leikstjórans

Aðspurður um þennan bakgrunn í kvikmyndagerðinni segir Börkur að tónlistarmyndbönd og auglýsingar séu góður skóli.

„Þetta eru miðlar sem reiða sig á myndmálið rétt eins og kvikmyndirnar. Þarna verður þú að geta sagt sögu á mjög stuttum tíma og í mynd og þá nýttist mér líka vel bakgrunnur í ljósmyndun því maður er alltaf að leita að þessu hlaðna augnabliki. Finna myndmálið sem segir mest og það skilar sér einkar vel í spennumyndaforminu þegar það er rík þörf á því að fanga stemningu fremur en orð. Það er í raun synd hvað allt er breytt í kringum tónlistarmyndböndin í dag frá því að ég var að fást við þau. Það var verið að skjóta á filmu með alvöru kostnaðaráætlun og maður var að vinna með alvöru fagfólki. Skipulagið þá var mun líkara því sem er í kvikmyndum og auglýsingum sem gerði það miklu léttara að fara þarna á milli eða koll af kolli. Þetta er því miður aðeins að glatast núna því ég get vel ímyndað mér að ef ég væri að byrja í tónlistarmyndböndum í dag væri ég meira bara með mína stafrænu myndavél og félaga mína mér til aðstoðar en engan aðgang að einhverjum innviðum. Maður gat komist í tæki og tól og framleiðslufyrirtækin hjálpuðu manni ef maður var bara nægilega graður og maður var að stela filmum úr kælum svona hér og þar. En maður var að vinna í umhverfi sem er miklu nær eiginlegri kvikmyndagerð.“

Börkur segir að þetta hafi skipt miklu máli vegna þess að leikstjórn sé að svo miklu leyti fólgin í að kunna að raða fólki í kringum sig.

„Að kunna að nýta krafta fólks til fullnustu. Fólk sem er með getu sem er langt umfram það sem maður hefur sjálfur. Þess vegna er stundum talað um það að þegar maður er kominn með handrit, leikara og mannskap þá sé maður sem leikstjóri eiginlega búinn með 80% af vinnunni. Þá er bara að setjast niður og gæta þess að allt fari rétt fram.“

Börkur segir að það hafi líka gert hans vinnu ánægjulega hversu gott fólk hann hafi fengið til starfa við Varg. Í aðalhlutverkum eru Gísli Örn Garðarsson, Baltasar Breki Samper, Marijana Jankovic, Anna Próchniak og auk þess hafi verið valinn maður í hverju rúmi hvorum megin sem var myndavélarinnar.

Glæpasagan og samfélagið

Auk þess að vera leikstjóri Vargs þá er Börkur einnig höfundur handritsins sem hann byrjaði að vinna að árið 2009.

„Ég var að dúlla mér við þetta handrit í nokkur ár en það er í raun búið að vera tilbúið síðan 2013 en það er þolinmæðisverk að búa til kvikmynd.“ Börkur segir að Vargur fjalli um tvo bræður sem hafi farið mjög ólíkar leiðir í lífinu en eru báðir í vanda staddir fjárhagslega en af ólíkum ástæðum.

„Þeir snúa bökum saman og skipuleggja innflutning á einu og hálfu kílói af kókaíni en það fer allt til fjandans. Án þess að ég vilji nú segja of mikið þá er sagan einkum um hvað gerist eftir að burðardýrið þeirra veikist og viðbrögð þeirra við þeirri stöðu sem er komin upp. Svona hvernig þeir tækla stöðuna ef svo má segja og hvernig það knýr fram og opinberar þeirra innra eðli.“

Þegar horft er til þess að Börkur byrjaði að vinna að þessari hugmynd í kjölfar efnahagshrunsins vaknar óneitanlega sú spurning hvort verkið sé samfélagslegs eðlis auk þess að vera hefðbundin spennumynd?

„Já, sannarlega. Þetta kemur vissulega mikið upp úr pælingum um hrunið því það tímabil bæði var og er mér mjög hugleikið. Hvernig það blöstu við brestir í samfélaginu og íslenskri þjóðarsál? Glæpasagan er einmitt frábært form til þess að skoða samfélagslega þætti og ekki síður eitthvað sem snýr að manni sjálfum persónulega. Á þessum tíma þurfti ég eins og svo margir að horfast í augu við mína forgangsröðun. Spyrja mig hver minn þáttur væri í þessu öllu saman og hvernig ég væri á einhvern hátt þátttakandi og túlkandi í öllum þessum umbrotum. Fyrir slíka rannsókn er glæpasagan frábær leið vegna þess að innan hennar getur maður ýkt hluti sem maður finnur í eigin fari og skoðað þá í öðru samhengi. Þó maður sé ekki að velta fyrir sér innflutningi á fíkniefnum þá getur maður engu að síður skoðað hvar og hvernig maður hefur stytt sér leið í gegnum tíðina. Þarf ég að horfast í augu við það? Þetta finnst mér skemmtilegt að skoða en þannig er að fást við sköpun; maður tekur allt sem maður upplifir og hrærir í einn graut. Hvort sem það eru sigrar eða áföll þá verður það manni allt að innblæstri.“

Það er mikill uppgangur í leiknu efni víða í heiminum þessa dagana og Börkur segir að það sé gaman að sjá hversu óseðjandi eftirspurn virðist vera eftir vönduðu afþreyingarefni.

„Efni sem spyr spurninga og veltir upp málum sem snerta samtímann og líf okkar. Ég held að fólk vilji ekkert endalaust vera að flýja veruleikann heldur er það þessi gullna blanda á milli afþreyingar og félagslegs gildis sem svo mikil eftirspurn virðist vera eftir. Eitthvað sem snertir við fólki í raunveruleikanum en er um leið afþreying og fólk hefur gaman af því að horfa á. Þú getur farið og horft á bíómynd fyrir poppkornið en ef hún býr yfir raunverulegri dýpt þá er hún einfaldlega miklu áhugaverðari fyrir fleiri. Þannig að ég held að kvikmyndir þurfi ekki að vera annaðhvort eða. Mér finnst líka mikilvægt að það blasi ekki við einhvers konar predikun kvikmyndagerðarmannsins því starf listamannsins er að velta upp spurningum en ekki endilega að sjá þér fyrir svörum.“


Tengdar fréttir

Frumsýning: Fyrsta stikla úr Vargi ógnvekjandi

RVK Studios og Baltasar Kormákur ætla frumsýna spennumyndina Vargur eftir leikstjórann Börk Sigþórsson í byrjun næsta mánaðar og frumsýna því í tilefni af því fyrstu stikluna úr kvikmyndinni hér á Vísi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.