Körfubolti

Durant með 38 stig er meistararnir komust í 3-1

Anton Ingi Leifsson skrifar
Durant setur niður skot í leiknum í kvöld. Hann skoraði 38 stig.
Durant setur niður skot í leiknum í kvöld. Hann skoraði 38 stig. visir/getty

Golden State Warriors, ríkjandi meistarar í NBA-deildinni, eru komnir í 3-1 gegn New Orleans Pelicans í úrslitakeppninni þar í landi eftir stórsigur í fjórða leik liðanna í kvöld, 118-92.

Ríkjandi meistararnir byrjuðu af miklum krafti og leiddu með fimmtán stigum eftir fyrsta leikhlutann, 37-22, en þeir slökuðu aðeins á í öðrum leikhluta.

New Orleans gekk aðeins á lagið og þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 61-54. Þriðji leikhlutinn var rosalegur hjá Golden State sem keyrði yfir New Orleans.

Liðið vann leikhlutann með fjórtán stiga mun, 33-19, svo eftirleikurinn var auðveldur í fjórða leikhlutanum. Golden State vann að lokum með 26 stiga mun, 118-92 og er því komið í 3-1 í einvíginu.

Kevin Durant var algjörlega magnaður í liði Warriors. Hann skoraði 38 stig, tók níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar en næstur kom Stephen Curry með 23 stig. Kevin Thompson bætti við þrettán stigum.

Í liði New Orleans var Anthony Davis stigahæstur með 26 stig en hann tók að auki tólf fráköst. E’Twaun Moore bætti við 20 stigum.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.