Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Keflavík - Grindavík 0-2 | Grindvíkingar tóku þrjú stig í Keflavík

Smári Jökull Jónsson á Nettó-vellinum í Reykjanesbæ skrifar
Vísir/Andri Marínó
Grindavík vann sanngjarnan sigur á Keflavík í kvöld í fyrsta Suðurnesjaslagnum í efstu deild síðan 2012. Lokatölur urðu 2-0 eftir mörk frá Birni Berg Bryde og Sam Hewson í síðari hálfleiknum.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn en heimamenn ógnuðu strax í upphafi þegar Kristijan Jajalo markvörður gestanna þurfti að hafa sig allan við til að verja skot Adams Árna Róbertssonar.

Síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks byrjuðu Grindvíkingar svo að bíta frá sér og taka yfirhöndina. Hvorugt liðið náði að ógna að ráði en Grindvíkingar höfðu eitthvað til að byggja á sóknarlega fyrir seinni hálfleikinn.

Eftir hlé voru gestirnir svo mun sterkari. Björn Berg kom þeim yfir á 57.mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir að aukaspyrna Gunnars Þorsteinssonar hafði endað í þverslánni. Og fimm mínútum síðar kom Sam Hewson gestunum í 2-0 með góðu skoti fyrir utan teig.

Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu eftir þetta en vörn Grindavíkur var traust. Heimamenn náðu lítið að skapa sér og gestirnir héldu boltanum vel sín.

Það fór svo að lokatölur urðu 2-0 og fyrstu stigin í hús hjá Grindvíkingum staðreynd. Keflvíkingar eru hins vegar enn með eitt stig eftir jafnteflið gegn Stjörnunni í fyrstu umferðinni.

Af hverju vann Grindavík?

Þeir voru mun beittari sóknarlega en heimamenn og þegar þeir náðu yfirhöndinni í seinni hálfleiknum voru þeir að spila vel. Á miðjunni höfðu þeir yfirburði og það var góð ákvörðun hjá Óla Stefáni þjálfara að færa fyrirliðann Gunnar Þorsteinsson inn á miðjuna við hlið Sam Hewson.

Keflvíkingar voru alltof bitlausir sóknarlega í dag og leikplanið þeirra, að bíða þolinmóðir eftir að Grindvíkingar kæmu á þá, fór út um þúfur þegar gestirnir komust yfir.

Þessir stóðu upp úr:

Sam Hewson var mjög góður hjá Grindavík í dag og kórónaði leik sinn með góðu marki. Hinn efnilegi Aron Jóhannsson kom inn á miðjuna í dag og var sömuleiðis mjög öflugur og ásamt Gunnari Þorsteinssyni höfðu þeir mikla yfirburði á miðjum vellinum.

Björn Berg Bryde og Rodrigo Mateo voru mjög traustir í vörninni og heilt yfir spilaði Grindavík vel í dag.

Hjá Keflavík var Einar Orri Einarsson baráttuglaður inni á miðjunni líkt og alltaf og þá átti Marko Nikolic nokkrar góðar fyrirgjafir sem ógnuðu. Adam Árni átti sömuleiðis ágæta spretti og Sindri í markinu greip oft ágætlega inn í.

Hvað gekk illa?

Sóknarlega gekk lítið hjá Keflavík. Jeppe Hansen fékk úr litlu að moða og heimamenn réðu einfaldlega ekkert við varnarmenn gestanna í dag sem sáu við flestum aðgerðum Keflvíkinga.

Hvað gerist næst?

Grindavík á næst heimaleik gegn KR þar sem bæði lið verða væntanlega með sjálfstraustið í botni eftir góða útisigra í þessari umferð. Það verður afar áhugaverð viðureign.

Keflavík heldur næst á Kópavogsvöll og mætir þar funheitu liði Breiðabliks sem vann frábæran útisigur á FH í kvöld. Blikarnir hafa skorað 7 mörk í fyrstu tveimur umferðunum og Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur mun hafa nóg að gera að undirbúa sitt lið fyrir þann leik.

Maður leiksins: Sam Hewson, Grindavík.



Allar einkunnir leikmanna má sjá undir flipanum "liðin" hér fyrir ofan.


Óli Stefán: Langar að segja „Andri Rúnar hvað?"
Óli Stefán Flóventsson var sáttur með sína menn í Grindavík í dag.Vísir/Andri Marínó
„Ég er mjög ánægður með að við náum að tengja saman tvær góðar frammistöður og það eru úrslit sem fylgja þessari frammistöðu á útivelli gegn góðu liði. Þannig að ég er mjög ánægður í dag,“ sagði Óli Stefán Flóventsson þjálfari Grindavíkur eftir sigurinn í Keflavík í dag.

Óli Stefán gerði taktískar breytingar í dag þegar hann færði Gunnar Þorsteinsson úr vængbakverði inn á miðjuna og þá kom Aron Jóhannsson sömuleiðis inn á miðsvæðið. Þeir voru öflugir í dag ásamt Sam Hewson.

„Við náðum að þétta vel miðsvæðið og við færðum Rodrigo (Mateo) aftast og hann var mjög góður í dag í vörninni. Við fundum gott jafnvægi á liðinu og það var grunnurinn að því sem við gerðum.“

Grindavík tók yfirhöndina í seinni hálfleik eftir að hafa unnið sig vel inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiks.

„Þetta var stál í stál og við fórum yfir það í hálfleik að það sem við þurftum að skerpa á voru litlu atriðin, sendingar og móttökur. Við náðum því og fengum meiri hraða í okkar spil og þar af leiðandi betri stöður. Ég er líka ánægður með varnarleikinn og þeir fengu ekki mörg færi í dag,“ sagði Óli Stefán og bætti við:

„Þegar svona sóknarleikur fylgir í kjölfarið þá langar mig rosalega mikið að segja Andri Rúnar hvað?,“ en þar á Óli Stefán við markahrókinn Andra Rúnar Bjarnason en margir vilja meina að ómögulegt verði fyrir Grindvíkinga að fylla hans skarð eftir mörkin hans 19 í fyrra.

Grindavík á næst heimaleik gegn KR þar sem bæði lið munu mæta til leiks með sjálfstraustið í botni.

„Nú lokum við þessum leik og förum að einbeita okkur að næsta leik sem er KR. Það er mjög verðugur og öflugur andstæðingur. Við þurfum að fara vel yfir þá í vikunni og eiga okkar allra besta leik til að ná einhverju út úr þeim leik.“

Guðlaugur: Vorum ekkert sérstaklega hættulegir
Guðlaugur hér lengst til hægri ásamt aðstoðarmönnum sínum.
Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflvíkinga var vitaskuld svekktur eftir tapið á heimavelli gegn nágrönnunum frá Grindavík í kvöld.

„Þegar allt er talið þá er eflaust hægt að segja að þetta hafi verið sanngjarnt. Mér fannst mikið jafnvægi í leiknum þangað til markið þeirra kemur. Ég var ekki nógu ánægður með viðbrögð okkar við því og fannst við fara út úr því sem við vorum að gera ágætlega. Mér fannst við ívið sterkari fram að markinu en eftir það bæta þeir fljótt við og eru komnir með leikinn í hendurnar.“

„Við reynum að bæta við sóknarmönnum og ýta aðeins á þá en við vorum ekkert sérstaklega hættulegir. Við fengum einhverjar fyrirgjafir og hálffæri. Þeir gátu varist á fleiri mönnum eftir að þeir náðu forystunni en það vantaði meira hugmyndaflug í sóknina hjá okkur í dag,“ bætti Guðlaugur við.

Fyrra mark Grindavíkur kom eftir að aukaspyrna Gunnar Þorsteinssonar fór í þverslána og Björn Berg Bryde fylgdi vel á eftir. Aukaspyrnan var dæmd eftir að Einar Orri Einarsson braut á Rene Joensen á vítateigslínunni í skyndisókn.

„Hann fórnaði sér í gult spjald þá og ég held að það hafi verið hárrétt ákvörðun. Við eigum að vera klókari að taka seinni boltann þegar hann dettur inn í teiginn. Þeir voru grimmari í því tilfelli.“

Guðlaugur sagði að það eina í stöðunni fyrir hans menn væri að halda áfram en Keflavík er með eitt stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

„Þetta er einn leikur í bankann hjá okkur og það er stutt í næsta verkefni. Við förum yfir okkar leik í vikunni og það eru jákvæðir punktar í þessu líka,“ sagði Guðlaugur Baldursson við Vísi eftir leik.

Björn Berg: Vissi að ég myndi skora því ég er í skónum hans Andra Rúnars
Grindvíkingar fagnaVísir/Hanna
„Ég vissi að ég myndi skora í dag því ég er í skónum hans Andra Rúnars þannig að það kom ekkert annað til greina,“ sagði Grindvíkingurinn Björn Berg Bryde sem skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild í sigrinum á Keflavík í dag.

Skórnir sem hann talar um eru af Andra Rúnari Bjarnasyni, fyrrum leikmanni Grindavíkur, sem varð markahæstur í Pepsi-deildinni í fyrra þegar hann jafnaði markametið margfærga og skoraði 19 mörk.

„Ég fékk þá lánaða í fyrra og ætlaði að borga honum fyrir þá í vetur en hann sagði mér að hirða þá svo lengi sem ég færi að skora þá. Það er allt á réttri leið,“ sagði Björn Berg skælbrosandi. Er stefnan sett á 19 mörk líkt og Andri gerði í fyrra?

„Aldrei að vita, 20 kannski.“

Sigurinn var sanngjarn í dag og eftir að Grindvíkingar komust yfir í upphafi síðari hálfleiks var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi lenda.

„Keflavík eru með hörkulið og við vissum að ef við myndum halda hreinu þá værum við alltaf líklegir. Það var stefnan í dag og það gekk svo sannarlega eftir.“

„Í síðasta leik vorum við ekki nógu beittir. Við stóðum vörnina ágætlega en ekki nógu beittir sóknarlega og héldum boltanum illa. Í dag héldum við boltanum vel, vorum beittir á síðasta þriðjungi og uppskárum eftir því,“ sagði Björn Berg en Grindavík tapaði 1-0 fyrir FH í fyrstu umferðinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira