Erlent

Ríkisaksóknari segir af sér eftir ásakanir um ofbeldi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eric Schneiderman hefur verið hávær talsmaður kvenréttinda.
Eric Schneiderman hefur verið hávær talsmaður kvenréttinda. Vísir/afp

Ríkissaksóknari New York, Eric Schneiderman, hefur sagt upp störfum í kjölfar ásakana um að hann hafi beitt fjórar konur líkamlegu ofbeldi.

Konurnar stigu fram í samtali við tímaritið The New Yorker þar sem þær lýstu því hvernig Schneiderman hafði gengið í skrokk á þeim. Tvær þeirra eru sagðar vera fyrrverandi kærustur hans.

Þær lýstu því hvernig Schneidarman hafði ítrekað lamið þær, sérstaklega eftir að hann var kominn í glas. Þá á hann einnig að hafa hótað þeim lífláti ef þær myndu slíta sambandinu.

Schneidarman hefur þvertekið fyrir ásakanirnar en hann hefur verið opinber stuðningsmaður MeToo-hreyfingarinnar, sem berst gegn kynbundnu ofbeldi. Hann leiddi til að mynda málsóknina á hendur kvikmyndaframleiðandum Harvey Weinstein í febrúar síðastliðnum.

Í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gærkvöld sagði hann að það sem hann hefði gert innan veggja svefnherbergisins hafi verið með fullu samþykki beggja. „Ég hef ekki ráðist á neinn. Ég hef aldrei stundað kynlíf án samþykkis, það er lína sem ég myndi aldrei stíga yfir.“

Schneidarman bætti því síðar við að hann mótmælti ásökununum harðlega en að hann myndi engu að síður segja af sér. Hann segir að þó frásagnir kvennanna tengist ekki störfum hans fyrir saksóknaraembættið þá eru ásakanirnar þess eðlis að hann geti ekki haldið starfi sínu áfram.

Ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, hafði áður kallað eftir því að Schneidarman myndi segja af sér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×