Lífið

Jóhanna Guðrún er glöð og þakklát: „Ég bjóst ekki við þessu“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Jóhanna og Max unnu Allir geta dansað á Stöð 2 á sunnudag.
Jóhanna og Max unnu Allir geta dansað á Stöð 2 á sunnudag. Vísir/Atli
„Ég er ennþá að melta þetta,“ segir Jóhanna Guðrún Jónsdóttir sem stóð uppi sem sigurvegari í þáttunum Allir geta dansað, ásamt dansfélaga sínum Max Petrov.

„Ég bjóst ekki við þessu og ég held að við séum bæði bara svolítið rugluð í ríminu. Ég er allavega þakklát og þetta er bara alveg ótrúlegt,“ sagði Jóhanna í viðtali strax eftir keppnina. Max tekur undir og segir að sigurinn hafi komið á óvart.

„Ég þarf nokkra daga til þess að meðtaka þetta.“

Kom á óvart hvað þetta var erfitt  

„Það sem er búið að vera skemmtilegast við þetta allt er bara samvera með öllu þessu skemmtilega fólki. Að kynnast fullt af nýjum andlitum og vera bara partur af einhverju sem er svona stórt og kynnast svona vel, af því að það er ekki sjálfgefið,“ segir Jóhanna.

„Það kom eiginlega mest á óvart hvað þetta er búið að vera erfitt samt fyrir mann, þetta er búið að taka rosalega á. Þetta er búið að vera rosalega mikill tími, blóð, sviti og tár. Alveg alla leið sko. Þegar ég sagði já við þessu þá var ég alveg „já þetta verður bara stuð“ einhvern veginn. En svo var þetta ekkert alveg þannig.“

Jóhanna var því fljót að fara í keppnisgírinn.

„Þetta var aðeins meiri alvara en maður gerði sér grein fyrir en ekki það að það sé slæmt.“

Vísir/Atli

Danskennarinn stoltur   

„Ég er svo stoltur af þér,“ sagði Max við Jóhönnu eftir úrslitin. Jóhanna var í stóru hlutverki í ABBA sýningunni sem var í Hörpu um helgina og söng þar í tveimur sýningum daginn fyrir úrslitaþáttinn á sunnudag.

„Í gær þurfti hún að sinna fullt af verkefnum og tónleikum og þegar hún mætti í morgun sá ég hvað hún var þreytt en samt gefur hún allt sitt í þetta,“ segir Max hreykinn. Hann þakkaði Jóhönnu kærlega fyrir samvinnuna á meðan æfingaferlinu og upptökum þáttanna stóð.

„Það hefur verið magnað að vinna með þér og kenna þér. Hún er mjög hæfileikaríkur dansari. Og söngkona.“

Jóhanna sagði þá þakklát að hún hafi líka fengið besta kennarann.

„Ég er gríðarlega glöð og þakklát. Maður verður bara svo glaður þegar maður fær að tjá sig í gengum líkamann. Það opnar hugann og hjartað einhvern veginn alveg og þetta er held ég bara hollt fyrir alla að dansa.“

Jóhanna Guðrún og Max Petrov enduðu keppnina á því að dansa sömbu.Skjáskot/Stöð 2

Mörg verkefni  framundan  

„Þetta er skrítið og ég bjóst ekki við þessu,“ sagði Jóhanna þegar Ísland í dag heimsótti hana í Hafnarfjörðinn í gær.

„Ég held að ég verði bara í nokkra daga að svona átta mig á því að við höfum unnið þetta.“

Hún viðurkennir að þetta hafi verið mikið spennufall og eyddi hún því mánudeginum í að slappa af eftir erfiða helgi.

„Dagurinn fer bara svona í það að jafna sig og skríða saman.“

Jóhanna fer strax í önnur verkefni og hefur augljóslega í nógu að snúast.

„Það er hellingur framundan, mikið af tónleikum og alls konar verkefnum sem að ég og maðurinn minn erum í saman og við erum með kórana okkar þrjá þannig að það er alltaf brjálað að gera hjá okkur.“

Vísir/Atli

Léttir að fá  tíurnar  

Varðandi fjarveruna frá heimilinu og eiginmanni og barni  og þessu álagi  á fjölskyldulífið segir Jóhanna:   



Ég held að allir keppendur hafi einmitt talað um það að maður er rosalega lítið heima hjá sér í gegnum þetta allt þetta ferli.  

Bendir hún á að flestir keppendur  eru líka í vinnu og með heimili og fjölskyldu, jafnvel börn.   

Á mánudegi mætir maður á dansæfingu og það er búið að plana einhverja rútínu og síðan þarf maður bara að æfa hana  þangað til hún er orðin nógu til að maður þori að dansa hana fyrir framan alþjóð og það tekur tíma.  

Jóhanna Guðrún segir að það hafi verið léttir að fá einkunnir dómaranna í lokaþættinum á sunnudag, en hún og Max fengu 10 stig frá öllum þremur dómurum fyrir báða dansa kvöldsins og luku því keppni með fullt hús stiga eða 60 stig.   

Við erum bæði miklar keppnismanneskjur og það kom alveg í ljós mjög fljótt á æfingum að við myndum bara keyra á þetta.    

Innslagið má horfa á í heild sinni hér að neðan:  


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×