Erlent

Önnur hitabylgja skellur á norðurpólnum

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Tjúktahafi við strendur Alaska í júlímánuði. Útbreiðsla hafíssins þar nú er sú minnsta sem mælst hefur í maí
Frá Tjúktahafi við strendur Alaska í júlímánuði. Útbreiðsla hafíssins þar nú er sú minnsta sem mælst hefur í maí Vísir/AFP
Hitinn sem mælst hefur á norðurskautinu undanfarna daga er líklega sá mesti á þessum árstíma frá því að mælingar hófust upp úr miðri síðustu öld. Á norðurpólnum sjálfum hefur hitinn náð frostmarki sem er um 17-19°C hlýrra en í venjulegu árferði.

Óvanaleg hlýindi hafa gengið yfir norðurskautið fjóra af síðustu fimm vetrum. Stór hluti norðurskautsins norðan 80. Breiddargráðu er nú sagður óvenjuhlýr, að því er kemur fram í umfjöllun Washington Post. Hitinn þar er nú um 10°C en vanalega væri hann nær -16°C. Það eru mestu hlýindi sem mælst hafa á svæðinu frá 1958.

Hafísinn hefur hopað hratt í hlýindunum. Við Svalbarða hefur hann skroppið saman um 82.000 ferkílómetra. Útbreiðsla hans er nú sú önnur minnsta frá því að mælingar hófust þar. Í Berings- og Tjúktahafi hefur hafísinni aldrei þakið minna svæði á þessum árstíma.

Líkt og í vetur þegar heitt loft streymdi norður á heimskautið en kalt loft þaðan suður í Evrópu og Síberíu hefur svalt heimskautaloftið leitað suður á bóginn til Grænlands. Þar hefur kuldinn efst á jöklinum nálgast met í maímánuði. Kuldinn hefur farið niður í -44°C. Árekstrar hlýs og kalds lofts við Grænland hefur valdið lægðagangi þar að undanförnu.

Hitabylgjan á norðurslóðum í vetur var rakin til röskunar á meginveðurkerfi norðurhvelsins sem heldur alla jafna köldu heimskautaloftinu á sínum stað. Vísindamenn hafa lengi velt vöngum yfir því hvort að hnattræn hlýnun af völdum manna gæti veikt veðurkerfið.

Það myndi gera sveiflur sem þessar líklegri þar sem hlýtt loft að sunnan ætti greiðari leið að norðurskautinu en kalt loft gæti að sama skapi þá skriðið suður og kælt meginlöndin þar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×