Skoðun
Halldór J. Jörgensson.

Eflum atvinnulíf í Garðabæ

Halldór J. Jörgensson skrifar

Atvinnuleysi í Garðabæ hefur aukist um 42% á einu ári. Hvergi á landinu eru fleiri háskólamenntaðir skráðir atvinnulausir en í Garðabæ eða 41% á meðan meðaltal sambærilegra sveitarfélaga er um 23% samkvæmt heimildum Vinnumálastofnunar. Þessari þróun vill Garðabæjarlistinn sporna við með markvissum aðgerðum til eflingar atvinnulífs og atvinnutækifæra. Þau tækifæri eru tilvalin tekjuaukning fyrir bæjarfélagið í formi aukins útsvars, aukinna tekna af atvinnustarfsemi og mögulega fyrirbyggjandi í aukningu umsókna um félagsleg úrræði.

Röng forgangsröðun meirihlutans
Á síðustu fjórum árum hefur lítið verið gert til að efla atvinnustarfsemi. Eitt af fyrstu verkum núverandi meirihluta var að leggja niður atvinnu- og tækniþróunarnefnd með þeim rökum að málaflokkurinn yrði færður til bæjarráðs. Undirritaður óskaði í framhaldi eftir því að málefni atvinnu og tækniþróunar yrði reglulegur dagskrárliður á fundum bæjarráðs. Það hefur ekki gerst enn á þessu kjörtímabili. Einu málin sem hafa verið rædd er koma Costco og tilraunir til að fá Vínbúðina á Garðatorg. Ekki hefur staðið á því að breyta skipulagi til að henta þessum aðilum þó svo sá seinni hafi alls ekki haft áhuga á Garðatorgi.

Forgangsröðum skipulagi fyrir atvinnustarfsemi
Garðabæjarlistinn vill forgangsraða deiluskipulagi fyrir atvinnustarfsemi. Í augnablikinu myndi Garðabær ekki geta tekið á móti fyrirtæki sem óskaði eftir lóð í Garðabæ fyrir sína starfsemi. Einfaldlega vegna þess að hún er ekki til á skipulagi. Garðabær á nægt land til að skipuleggja sem er tilvalið til atvinnustarfssemi. Það eina sem vantar er pólitískan vilja. Við viljum sjá tækifæri fyrir smærri og millistór fyrirtæki að setjast að eða hefja sína starfsemi í Garðabæ. Fyrirtæki sem eru með háa verðmætasköpun og kalla eftir menntuðu starfsfólki.

Ávinningur samfélagsins
Með því að skapa fleiri störf í Garðabæ eru meiri líkur á að Garðbæingar geti sótt atvinnu í bæjarfélagið. Þetta styttir daglegar ferðir í og úr vinnu, gerir íbúum mögulegt að vera nær skólum, íþróttastarfsemi og losar íbúa frá því að þurfa sitja löngum tímum í umferðahnútum höfuðborgarsvæðisins. Fjárhagslegur ávinningur Garðabæjar er töluverður í formi aukins útsvars og aukinna tekna af atvinnustarfssemi. Ávinningur íbúa eru fleiri tækifæri til að búa og starfa í Garðabæ. Ávinningur umhverfisins er minni mengun. 

Virkjum lýðræðið, kjósum Garðabæjarlistann og gerum Garðabæ fyrir alla. Líka atvinnurekstur.

Höfundur er bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar og skipar 4. sæti á lista Garðabæjarlistans.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.