Erlent

Google bannar allar auglýsingar fyrir þjóðaratkvæði um fóstureyðingar

Kjartan Kjartansson skrifar
Auglýsingar sem Google selur birtast á milljónum vefsíðna og á Youtube.
Auglýsingar sem Google selur birtast á milljónum vefsíðna og á Youtube. Vísir/AFP

Tæknirisinn Google ætlar að leggja blátt bann við auglýsingum sem tengjast þjóðaratkvæðagreiðslu um fóstureyðingar á Írlandi sem fara fram síðar í þessum mánuði. Facebook sagðist í gær ekki ætla að taka við auglýsingum sem tengjast atkvæðagreiðslunni frá erlendum aðilum.

Greidd verða atkvæði um hvort afnema eigi ákvæði í stjórnarskrá Írlands sem leggur bann við fóstureyðingum 25. maí. Töluvert hefur borið á misvísandi áróðri í tengslum við atkvæðagreiðsluna. Bandarískir hópar sem eru andsnúnir fóstureyðingum hafa meðal annars beitt sér til að hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna.

Í yfirlýsingu í dag segir Google að það ætli að stöðva auglýsingar sem tengjast atkvæðagreiðslunni frá og með morgundeginum. Auglýsingar frá Google birtast á milljónum vefsíðna, þar á meðal á myndbandasíðunni Youtube, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Tæknifyrirtæki og samfélagsmiðlar hafa verið undir þrýstingi til að bregðast við eftir að misvísandi áróðri var beitt til að hafa áhrif á nýlegar kosningar eins og bandarísku forsetakosningarnar árið 2016. Þá kom nýlega í ljós að breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica komst yfir persónuupplýsingar um milljónir Facebook-notenda sem það notaði til að sérsníða auglýsingar að einstökum markhópum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.