Innlent

Tveir haft samband við Persónuvernd vegna gagnaleka sveitarfélaga

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Tveir hafa haft samband við Persónuvernd í dag vegna gagnaleka þriggja sveitarfélaga sem birtu viðkvæmar upplýsingar á heimasíðum sínum. Persónuvernd kannar nú stærð og umfang gagnalekans.

Fleiri sveitarfélög hafa í dag lokað fyrir aðgengi að bókhaldi sínu á heimasíðum bæjarfélaganna, en þau höfðu opnað fyrir upplýsingarnar til að auka gagnsæi í rekstri sínum. Þar má nefna Akureyrarbæ og Hafnarfjörð. Fyrir liggur að viðkvæm persónugreinanleg gögn hafi ekki birst á heimasíðum þessara sveitarfélaga heldur var lokunin gerð í öryggisskyni.

Gagnaleki Seltjarnarnesbæjar, Garðabæjar og Akraneskaupstaðar var tekinn fyrir hjá Persónuvernd í dag sem kallaði eftir upplýsingum um málið og metur nú stærð og umfang hans.

Í yfirlýsingu sem birtist á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar í gær er farið yfir feril gagnalekans en þar segir sviðstjóri ráðgjafasviðs KPMG sem aðstoðaði sveitarfélögin við að birta bókhald bæjarins í gegnum hugbúnað frá Microsoft að; “Möguleikinn til að skoða þessi viðkvæmu gögn hafi ekki verið augljós almennum notendum og hafi krafist tæknilegrar þekkingar til að virkja. Þannig hafi þessar viðkvæmu upplýsingar ekki verið auðveldlega aðgengilegar,”

Þessari fullyrðingu hafnar fréttastofan því tölvuþekking þess sem hér skrifar er ekki meiri en almennt þykir. Það eina sem var gert var að fara yfir upplýsingarnar með músinni og hægri smellt.

Ekki er ólíklegt að sveitarfélögin hafi skapað sér skaðabótaskyldu með birtingu gagnanna en brot lögum um persónuvernd geta varðað fésektum og alltaf þriggja ára fangelsi.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar sagði í samtali við fréttastofu nú síðdegis að tveir hafi leitað til stofnunarinnar í dag til þess að fá leiðbeiningar eða upplýsingar um hvort nöfn þeirra hefðu orðið undir í gagnalekanum. Gögnin sem fréttastofa skoðaði um helgina varða hins vegna tugi ef ekki hundruð einstaklinga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×