Enski boltinn

Sex ára bann fyrir að reyna að fá gult á móti Jóhanni Berg og félögum | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Bradley Wood þarf að finna sér eitthvað annað að gera næstu sex árin.
Bradley Wood þarf að finna sér eitthvað annað að gera næstu sex árin. vísir/Getty
Bradley Wood, leikmaður Alfreton Town á Englandi, var í gær dæmdur í sex ára bann frá fótbolta fyrir veðmálasvindl í enska bikarnum á síðustu leiktíð þar sem að hann reyndi tvívegis að fá gult spjald.

Wood, sem er 26 ára gamall, var leikmaður Lincoln City á síðustu leiktíð sem var spútniklið enska bikarsins. Það varð fyrsta liðið í 103 ár til að komast í átta liða úrslit bikarsins eftir 1-0 sigur á Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley.

Lincoln vann einnig Ipswich og Brighton á leið sinni í átta liða úrslitin en það var í leikjunum á móti Burnley og Ipswich sem að Wood reyndi að fá gult spjald og græða pening á því fyrir sig, vini sína og fjölskyldu.

Játaði 23 brot

Enska knattspyrnusambandið sagði að sjö manns, þar af tveir nánir vinir Wood, veðjuðu á að hann myndi fá gult spjald en heildarverðmæti vinninganna nam um 10.000 pundum. Ekki allt var greitt út, en BBC greinir frá.

Wood barðist gegn báðum kærunum en játaði á sig 23 önnur brot um að veðja á leiki í enska boltanum sem leikmenn mega ekki gera. Hann fékk fimm ára bann fyrir gulu spjöldin og sjötta árið fyrir að játa á sig hin brotin. Hann spilar næst fótbolta árið 2024.

Fyrra gula spjaldið sem um ræðir fékk Wood í endurteknum leik á móti Ipswich í þriðju umferð bikarsins 17. janúar á síðasta ári en hann var þá færður til bókar fyrir að brjóta viljandi á Tom Lawrence til að stöðva skyndisókn.

Reyndi margoft að fá gult

Wood var svo spjaldaður fyrir sinn þátt í átökum leikmanna í leiknum á móti Burnley á 70. mínútu. Wood neitaði báðum ásökunum og sagði að hann hefði ekki beðið með það fram á 90. mínútu að fá spjald á móti Ipswich ef hann væri að reyna að svindla.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley í umræddum bikarleik en fór af velli á 20. mínútu vegna meiðsla og var því ekki inn á vellinum þegar að at vikið átti sér stað.

Enska knattspyrnusambandið hélt því fram að Wood hefði margsinnis komið sér í stöðu þar sem að hann gat fengið gult spjald.

Í heildina fékk Bradley Wood sex gul spjöld í enska bikarnum á síðustu leiktíð en þau öll má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×