Enski boltinn

Wenger hættir hjá Arsenal eftir tímabilið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Wenger verður að vinna Evrópudeildina til að fá sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili
Wenger verður að vinna Evrópudeildina til að fá sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili vísir/getty
Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, lætur af störfum hjá félaginu í lok tímabils en þetta kemur fram í fréttatilkynningu á heimasíðu Arsenal.Frakkinn hefur stýrt Arsenal-liðinu síðan árið 1996 og unnið ensku úrvalsdeildina þrisvar sinnum og enska bikarinn sjö sinnum.

Arsenal-liðið komst ekki í Meistaradeildina á síðustu leiktíð og á ekki möguleika á að komast í hana núna í gegnum deildina en liðið er enn þá í séns í Evrópudeildinni þannig að Wenger getur kvatt með titli.

„Eftir mikla umhugsun í kjölfar viðræðna við félagið tel ég að þetta sé rétti tíminn fyrir mig að stíga til hliðar. Ég er þakklátur fyrir þau forréttindi að hafa þjónað þessu félagi í gegnum árin,“ segir Wenger í yfirlýsingu sinni.

„Ég hef gefið mig allan í starfið og vil þakka starfsfólkinu, leikmönnum og yfirmönnum sem hafa gert þetta félag svo sérstakt. Ég vil skora á stuðningsmenn okkar að styðja liðið til enda og hjálpa okkur að klára leiktíðina á sem bestan hátt,“ segir Arsene Wenger.

Frakkinn, sem er 68 ára gamall og er langlífasti stjórinn í úrvalsdeildinni, kom með látum til Englands árið 1996 og vann titilinn á annarri leiktíð sinni með Arsenal.

Hann hafði áður þjálfað Monaco og gert það að meistara í Frakklandi en hann kom til Englands frá Nagoya Grampus í Japan.

Stærsta afrek Wengers á einni leiktíð var að vinna enska titilinn árið 2004 án þess að tapa einum leik en honum hefur aldrei tekist að vinna titil í Evrópu. Hann fær einn séns í viðbót en liðið er enn í leik í Evrópudeildinni.

Wenger kom Arsenal 17 ár í röð í Meistaradeildina, meðal annars á erfiðum tímum þar sem var verið að byggja nýjan völl, en hann þurfti margoft að selja sína bestu leikmenn. Hann hefur fengið sinn skerf af gagnrýni á undanförnum árum og er umdeildur í starfi þrátt fyrir mikinn árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×