Innlent

Leigubílstjórinn gaf sig fram við lögreglu

Birgir Olgeirsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Sindri Þór Stefánsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þangað tók hann leigubíl.
Sindri Þór Stefánsson í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þangað tók hann leigubíl. Mynd/Lögreglan á Suðurnesjum
Leigubílstjórinn, sem Sindri Þór Stefánsson fékk far með upp á Keflavíkurflugvöll á þriðjudagsmorgun, hefur gefið sig fram við lögreglu. Bílstjórinn er ekki grunaður um neitt saknæmt og þegar hefur verið tekin skýrsla af honum. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Vísi.

Bílstjórinn gaf sig fram við lögreglu í dag, að sögn Ólafs, en óskað hafði verið eftir framburði hans síðan Sindri strauk úr fangelsinu að Sogni um klukkan eitt aðfararnótt þriðjudags. Hann var mættur upp á Keflavíkurflugvöll um þremur klukkustundum síðar.

Ólafur segir enn fremur að ekki sé óeðlilegt að vitni séu svo lengi að gefa sig fram. Þá hafi verið tekin skýrsla af bílstjóranum en ekkert nýtt komið fram við skýrslutökuna.

Sjá einnig: Lögreglustjóri mótmælti að Sindri færi í opið fangelsi

Að sögn Ólafs liggur nú fyrir hvar leigubílstjórinn tók Sindra upp í bílinn. Ólafur kveðst þó ekki ætla að upplýsa nánar um það á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Rannsókn málsins er nú í fullum gangi og ítrekar Ólafur að engar samningaviðræður séu í gangi milli lögreglu og Sindra, eins og Sindri hélt fram í yfirlýsingu sem hann sendi Fréttablaðinu í morgun. Þá segir Ólafur lögreglu ekki vera á leiðinni erlendis að leita að Sindra.

Um yfirlýsingu Sindra segir Ólafur að fróðlegt væri að vita hvaðan hún hafi borist. Þá sé ekki hægt að segja til um það hvort einhver frá Fréttablaðinu, sem birti yfirlýsinguna, verði yfirheyrður vegna málsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×