Herrera skaut United í úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rauða liðið sigraði baráttuna á Wembley í dag
Rauða liðið sigraði baráttuna á Wembley í dag vísir/getty
Manchester United leikur til úrslita í ensku bikarkeppninni í fótbolta eftir sigur á Tottenham í undanúrslitunum á Wembley í dag.

Leikurinn byrjaði fjörlega og kom Dele Alli Tottenham yfir á 11. mínútu með marki eftir frábært uppspil. Davidson Sanchez átti langa sendingu fram á Christian Eriksen sem hljóp inn fyrir varnarlínu United upp á hægri kantinum. Daninn fann svo Dele Alli í hlaupinu inni í teignum og kláraði hann færið vel framhjá David de Gea í marki United.

Stuttu seinna var United hins vegar búið að jafna metin. Paul Pogba vann þá boltann djúpt á vallarhelmingi Tottenham og Frakkinn átti hnitmiðaða sendingu beint á kollinn á Alexis Sanchez sem stýrði boltanum í netið.

Eric Dier var hársbreidd frá því að koma Tottenham yfir undir lok fyrri hálfleiks en skot hans af löngu færi small í stönginni rétt áður en flautað var til leikhlés.

Seinni hálfleikurinn fór mun rólegar af stað og lítið markvert sem átti sér stað þar til Ander Herrera kom United yfir á 62. mínútu. Alexis Sanchez sendi boltann þvert fyrir markið við markteigslínuna, Romelu Lukaku hitti sendinguna illa en boltinn barst til Ander Herrera og Spánverjinn hamraði boltann í netið.

Eftir seinna markið var United með nokkuð góða stjórn á leiknum og de Gea þurfti lítið að hafa fyrir hlutunum í marki United, lokatölur urðu 2-1.

United er á leið í sinn tuttugasta úrslitaleik þar sem liðið getur unnið þrettánda bikarmeistaratitilinn í sögu félagsins. Tottenham hefur hins vegar tapað í átta síðustu undanúrslitaleikjum.

United mætir annað hvort Chelsea eða Southampton í úrslitunum á Wembley 19. maí, en hinn undanúrslitaleikurinn er leikinn á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira