Lacazette skoraði tvö í sigri Arsenal

Dagur Lárusson skrifar
Alexandre Lacazette.
Alexandre Lacazette. vísir/getty
Aaron Ramsey og Alexandre Lacazette tryggðu Arsenal 4-1 sigur á West Ham á lokamínútunum í Lundúnarslagnum á Emirates vellinum en með sigrinum komst Arsenal í 57 stig.

 

Það var jafnræði með liðunum framan af leik en hvorugu liðinu tókst þó að skapa sér nægilega góð marktækifæri í fyrri hálfleiknum og var því markalaust í hálfleiknum.

 

Skytturnar mættu öflugar til leiks í seinni hálfleikinn og náðu forystunni strax á 51. mínútu og var það Nacho Monreal sem skoraði markið eftir stoðsendingu frá Granit Xhaka. Þetta var sjötta mark Monreal í deildinni á tímabilinu og verður það að teljast magnaður árangur hjá vinstri bakverði.

 

Liðsmenn West Ham neituðu þó að gefast upp og sóttu stíft næstu mínúturnar. Á 64. mínútu barst boltinn til Marko Arnautovic í teig Arsenal og þrumaði hann boltanum í netið framhjá Ospina í markinu og var staðan því orðin jöfn.

 

Eftir þetta mark gerði Wenger skiptingu og setti Aubameyang inná sem átti eftir að skipta sköpum. Meiri hraði kom í sóknarleik Arsenal og urðu sóknirnirnar hættulegri.

 

Á 82. mínútu fékk Aaron Ramsey boltann á vinstri vængnum og gaf boltann inná teig og virtist boltinn ætla rata beint á ennið á Declan Rice í vörn West Ham, en allt kom fyrir ekki því hann beygði sig niður og boltinn fór því beint í markið framhjá Joe Hart og Skytturnar aftur komnar með forystuna.

 

Eftir þetta opnuðust allar flóðgáttir og skoraði Frakkinn Alexandre Lacazette tvö mörk áður en flautað var til leiksloka og lagði Aubameyang upp fyrra markið. Nú er Lacazette kominn með 15 mörk í deildinni sem verður að teljast fínasti árangur.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira