Enski boltinn

Özil: Wenger var ástæðan afhverju ég kom

Dagur Lárusson skrifar
Mesut Özil og Arsene Wenger.
Mesut Özil og Arsene Wenger. vísir/getty
Mesut Özil, leikmaður Arsenal, hefur farið fögrum orðum um stjóra sinn Arsene Wenger sem tilkynnti það í gær að hann myndi hætta með liðið eftir tímabilið.

Arsene Wenger hefur verið stjóri Arsenal í 21 ár og segir Mesut Özil að Wenger hafi verið ein af stærstu ástæðunum fyrir því að hann gekk til liðs við Arsenal árið 2013.

„Það var stjórinn sem fékk mig hingað til Arsenal og vildi að ég myndi vera áfram hjá Arsenal á þessu tímabili og þess vegna vildi ég vera hér áfram. Núna viljum við halda áfram og setja okkur stærri markmið.“

Framtíð Özil hjá Arsenal hafði verið í óvissu þar til hann skrifaði undir nýjan samning í byrjun árs.

„Hann hefur alltaf gefið mér það frelsi til þess að spila eins og ég vil spila og sem skapandi leikmaður þá er það mjög dýrmætt. Hann hefur alltaf haft trúr á mér og hann hefur sagt mér það og þegar maður eins og hann segir svoleiðis hluti við þig þá viltu berjast fyrir hann,“ sagði Özil.

Aaron Ramsey og Jack Wilshere höfðu sömu sögu að segja um Arsene Wenger.

„Það hefur verið sannur heiður fyrir mig að spila fyrir þig og vinna titla með þér. Þú hefur haft mikil áhrif á mig, bæði innan sem utan vallar og hefur gert mig að manni. Þú breyttir enskri knattspyrnu og hefur gert svo mikið fyrir fyrir félagið, takk fyrir allt stjóri,“ sagði Ramsey.

„Ég vil þakka manninum sem gaf mér tækifæri aðeins 16 ára gömlum og hafði alltaf mikla trú á mér. Alltaf mikill herramaður og hefur verið eins faðir fyrir mér á erfiðum tímum á mínum ferli. Takk fyrir allt Arsene, það er undir okkur komið að kveðja þig og enda tíma þinn hjá félaginu á viðeigandi hátt,“ sagði Wilshere.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×