Enski boltinn

Klopp brjálaður út af „tilgangslausri endurkomu WBA og sóun á stigum“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Klopp var ósáttur í leikslok í dag
Klopp var ósáttur í leikslok í dag vísir/afp
Knattspyrnustjóri Liverpool, Jurgen Klopp, var allt annað en sáttur með jafntefli sinna manna gegn WBA í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Liverpool var með tveggja marka forystu þegar aðeins átján mínútur lifðu af leiknum en mörk frá Jake Livermore og Salomon Rondon stálu stigi fyrir botnliðið.

Stigið gerði þó lítið fyrir WBA sem er átta stigum frá 17. sætinu þegar liðið á þrjá leiki eftir. Sigur Liverpool hefði hins vegar farið langt með að tryggja sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili.

„Tilgangslaus endurkoma,“ sagði Klopp þegar hann var beðinn um að gera upp leikinn. „Stig hjálpar West Brom ekkert sérstaklega, þetta er algjör sóun á stigum, þeir þurfa það ekki en við hefðum þurft þau öll.“

„Þeir eru ánægðir núna, ekki við. Við verðum áfram í deildinni, ekki þeir. Þetta er skrítin staða.“

Klopp var óánægður með dómara leiksins og einnig ástand vallarins.

„Við þurfum að skapa bestu aðstæðurnar til þess að hjálpa strákunum að standa sig og svo leyfum við heimaliðinu bara að ákveða hvort það eigi að vökva völlinn eða ekki. Það er ekki bara slæmt fyrir gæðin á fótboltanum, það er hættulegt fyrir leikmennina ef völlurinn er þurr. Ég hefði líklegast ekki minnst á þetta ef við hefðum unnið en þetta er það eina sem ég horfði á yfir leiknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×