Innlent

Húsráðandi slökkti eldinn sjálfur

Þórdís Valsdóttir skrifar
Tilkynnt var um eld í húsi við Boðagranda laust eftir klukkan fjögur.
Tilkynnt var um eld í húsi við Boðagranda laust eftir klukkan fjögur. Vísir/Vilhelm
Laust eftir klukkan fjögur í nótt barst slökkviliði tilkynning um mikinn svartan reyk í stigagangi fjölbýlishúss við Boðagranda. Húsráðendur, maður og kona, vöknuðu við hljóð úr reykskynjara og reyndist vera eldur í eldhúsi íbúðarinnar. 

Lögreglan var fyrst á staðinn en þá hafði konan sem býr í íbúðinni slökkt eldinn sjálf. Að sögn slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu höfðu húsráðendur flúið fram á gang eftir að þau urðu vör við eldinn en konan tók slökkvitæki sem staðsett var á stigagangi fjölbýlishússins og brá sér aftur inn í íbúðina og slökkti eldinn að mestu. Parið var flutt á slysadeild vegna gruns um reykeitrun.

Eftir að slökkviliðið kom á staðinn var gengið úr skugga um að ekki væri enn glóð í eldhúsi íbúðarinnar og í kjölfar þess var húsið reykræst. 

Aðrir íbúar hússins voru beðnir um að fara út á svalir til öryggis á meðan á þessu stóð en slökkvistarf gekk vel að sögn slökkviliðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×