Erlent

Handtóku mótmælendur í stórum stíl

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Tugir þúsunda Armena mótmæltu um helgina.
Tugir þúsunda Armena mótmæltu um helgina. Vísir/AFP
Nærri 200 mótmælendur og þrír leiðtogar stjórnarandstöðunnar voru handteknir í Armeníu í gær. Alls mótmæltu tugir þúsunda Serzh Sargsyan forsætisráðherra og kröfðust afsagnar hans.

Mótmælendur voru einna helst ósáttir við hversu lengi Sargsyan hefur verið við völd, náið samband hans við yfirvöld í Rússlandi og linkind þegar kemur að því að uppræta spillingu. Sargsyan tók við forsætisráðuneytinu á þriðjudaginn eftir að hafa verið forseti Kákasusríkisins undanfarin tíu ár. Árið 2015 samþykktu Armenar í þjóðaratkvæðagreiðslu að fela forsætisráðherranum aukið vald á kostnað forseta.

Nikol Pashinyan, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og einn hinna handteknu, hafði átt í viðræðum við Sargsyan áður en mótmælaaldan skall á. Sargsyan stormaði reyndar út af fundinum stuttu eftir að hann hófst og sagði stjórnarandstöðuna reyna að kúga sig.

„Þetta eru engar viðræður, við vorum ekki að ræða neitt. Þetta eru bara afarkostir, það er verið að reyna að kúga ríkið, kúga lögmæt yfirvöld,“ sagði Sargsyan þá.

Evrópusambandið kallaði í gær eftir því að deilurnar í Armeníu yrðu leystar á friðsælan hátt. „Leysa ætti alla úr haldi sem voru einungis að nýta mótmælafrelsi sitt í samræmi við lög. Það er mikilvægt að allir aðilar sýni aðgát og hagi sér á ábyrgan hátt,“ sagði í yfirlýsingu sem ESB sendi frá sér í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×