Erlent

Slökkva á áróðurshátölurunum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Íbúar og hermenn á landamærum ríkjanna hafa mátt búa við suður-kóreska síbylju árum saman.
Íbúar og hermenn á landamærum ríkjanna hafa mátt búa við suður-kóreska síbylju árum saman. Vísir/Getty
Suður-Kóreumenn slökktu í morgun á hátalarastæðunni sem stendur á landamærum ríkisins við Norður-Kóreu. Stæðan hefur verið notuð í áraraðir til að varpa hvers kyns suður-kóreskum áróðri yfir landamærin, hvort sem það er dægurtónlist eða fréttir sem gagnrýna stjórnvöld í norðri.

Í ljósi þíðunnar sem nú virðist vera komin í samskipti ríkjanna tveggja hefur hins vegar verið ákveðið að slökkva á hátölurnum. Fulltrúar ríkjanna funda á föstudag og vona Suður-Kóreumenn að þessi ákvörðun þeirra verði til að létta andrúmsloftið enn frekar.

Á þessari stundu er þó ekki vitað hvort að Norður-Kóreumenn ákveði að gera slíkt hið sama, en þeir hafa einnig starfrækt hátalarastæðu sem varpar áróðri yfir til Suður-Kóreu.

Talsmaður suður-kóresku samninganefndarinnar segist vona að þögnin frá hátölurunum muni leggja grunninn að friði og nýju upphafi í samskiptum ríkjanna.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem slökkt hefur verið á hátölurunum. Það var til að mynda gert árið 2004 en þegar tveir suður-kóreskir hermenn slösuðustu árið 2015 eftir að hafa stigið á norður-kóreskar jarðsprengjur var aftur kveikt á þeim. Síðar sama ár var aftur slökkt á hátölurunum en þegar Norður-Kóreumenn hófu tilraunir á vetnissprengjum árið 2016 var ákeðið að byrja áróðursútsendingarnar aftur.

Suður-Kóreumenn hafa ekkert viljað segja um það hvort þeir hyggist kveikja aftur á hátölurunum að fundahaldi föstudagsins loknu.


Tengdar fréttir

Bein lína á milli leiðtoga Kóreuríkjanna í fyrsta sinn

Skrifstofur leiðtoga Suður- og Norður-Kóreu hafa verið tengdar saman með beinni símalínu sem gerir þeim kleift að ræða saman milliliðalaust og án fyrirvara. Leiðtogar Kóreuríkjanna hafa aldrei áður verið í svo beinu sambandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×