Innlent

Fullgilda samning um baráttu gegn ofbeldi á konum

Ingvar Þór Björnsson skrifar
Samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2011.
Samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum árið 2011. Vísir/E.Ól
Utanríkisráðuneytið hefur hafið undirbúning að fullgildingu samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi. Samningurinn var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum þann 11. maí 2011.

Markmið hans er meðal annars að vernda konur gegn öllum birtingarmyndum ofbeldis og fyrirbyggja ofbeldi, sækja til saka gerendur og uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þá á samningurinn einnig að stuðla að því að uppræta birtingarmyndir á mismunum gagnvart konum og að efla raunverulegt jafnrétti kvenna og karla.

Í samningnum segir jafnframt að það skuli efla alþjóðlegt samstarf með það að markmiði að uppræta ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi og ennfremur að styðja og aðstoða samtök og löggæsluyfirvöld til að geta átt árangursríkt samstarf um að vinna eftir samhæfðri aðferð til að uppræta slíkt ofbeldi.

Stefnt er að því að velferðarráðherra afhendi fullgildingarskjal Íslands framkvæmdastjóra Evrópuráðsins á ráðstefnu í París síðar í þessari viku. Frá því samningurinn var undirritaður hafa íslensk stjórnvöld gert margvíslegar breytingar á íslenskri refsilöggjöf til að hægt yrði að fullgilda hann.

Hægt er að lesa samninginn í heild sinni hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×