Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 96-85 │Haukar í kjörstöðu eftir öruggan sigur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rósa Björk Pétursdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir
Rósa Björk Pétursdóttir og Dagbjört Dögg Karlsdóttir vísir/bára dröfn
Haukar eru í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta eftir sigur á Val í þriðja leik í úrslitarimmunni gegn Val í Domino’s deild kvenna.

Leikurinn var mjög jafn frá upphafi. Bæði lið komu vel stemmd til leiks en Haukarnir voru virkari í baráttunni inni í teignum og tóku mun fleiri fráköst en Valskonur. Það gaf þeim þó lítið því skotin voru ekki að detta og þegar liðið var á fyrsta leikhluta var skotnýting Hauka 6 af 15 á móti 6 af 8 hjá Val.

Valur tók áhlaup í lok fyrsta leikhluta og komst fimm stigum yfir. Þá tók Ingvar leikhlé og kom sínum konum aftur inn í leikinn og aðeins munaði tveimur stigum í fyrstu leikhlutaskiptum. Annar leikhluti byrjaði hins vegar ekki nógu vel hjá gestunum og ekki leið á löngu þar til Haukar voru búnir að jafna.

Haukakonur virtust komnar í einhvern gír og hvert þriggja stiga skotið af öðru söng í netinu. Valskonur áttu í erfiðleikum með að finna svör í sínum sóknarleik. Þegar flautað var til hálfleiks var sex stiga munur, 51-45, Haukum í vil.

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn ekki vel og munurinn varð fljótt kominn upp í 15 stig. Það gekk ekkert í sóknarleiknum og leikmenn Hauka héldu áfram að raða niður þriggja stiga skotum. Þegar leið á leikhlutann var orðið útlit fyrir að Haukar ætluðu að valta yfir leikinn og öll spenna var farin úr honum.

En þá vöknuðu gestirnir og fór aftur að sjá baráttu í vörninni hjá þeim og tvær, þrjár vel útfærðar sóknir skiluðu smá spennu í leikinn aftur. Fjórði leikhluti byrjaði á því að Valur komst undir tíu stiga múrinn og skriðþunginn var kominn Valsmegin. Þær náðu að minnka muninn niður í þrjú stig, 75-72, en þá sögðu Haukar stopp og skoruðu næstu tíu stig og komu leiknum í 85-72.

Eftir það náðu Valskonur aldrei að koma almennilega aftur til baka og fór svo að sigur Hauka var nokkuð öruggur, 96-85.

Afhverju unnu Haukar?

Rosalegur kafli undir lok fyrri hálfleiks og í upphafi þess seinni þar sem þristarnir duttu hver á eftir öðrum fór langt með að tryggja þeim sigurinn. Valur gerði mjög vel í því að koma til baka en það er erfitt að elta og Haukar gátu ýtt aðeins fastar á bensíngjöfina undir lokin og klárað leikinn að lokum frekar sannfærandi.

Hverjar stóðu upp úr?

Það breyttist ekkert hér í kvöld að Helena Sverrisidóttir er framúrskarandi leikmaður í íslenskum kvennakörfubolta. Hún var með enn eina þreföldu tvennuna og hún skilar alltaf frábærum leik. Þóra Kristín Jónsdóttir var sjóðheit í þriggja stiga skotunum og setti niður fjögur úr sjö skotum. Þá voru Rósa Björk Pétursdóttir og Sigrún Björg Ólafsdóttir líka mjög góðar í liði Hauka.

Hjá Val var Aalyah Whiteside afgerandi í stigaskorun, sérstaklega framan af. Guðbjörg Sverrisdóttir átti fínan leik og Bergþóra Holton Tómasdóttir var mjög áberandi í Valsvörninni.

Hvað gekk illa?

Val gekk frekar illa að ráða við sóknarafl Hauka. Það er reyndar ærið verkefni að ætla að slökkva í eins sjóðheitum þriggja stiga skyttum og margar af leikmönnum Hauka eru oft á tíðum, en varnarleikur Vals var oft ekki upp á marga fiska.

Þá var sóknarleikurinn á kafla í þriðja leikhluta þegar Haukar voru að byggja upp forskotið alveg fráleitur. Misheppnaðar sendingar og skot sem vildu ekki ofan í körfuna gerðu Val mjög erfitt fyrir.

Hvað gerist næst?

Leikur fjögur er eftir aðeins tvo daga, á fimmtudaginn, í Valsheimilinu. Þar geta Haukar náð í Íslandsmeistaratitilinn með sigri.

Ingvar Þór Guðjónssonvísir/bára dröfn
Ingvar: Vildum þetta miklu meira

„Ákveðni, barátta, dugnaður og vilji,“ sagði þjálfari Hauka, Ingvar Þór Guðjónsson, aðspurður hvað hafi skapað sigurinn í kvöld. „Við vidum þetta miklu meira heldur en í síðasta leik og það sýndi sig. Vorum grimmari á löngum köflum varnarlega og lungann af leiknum vorum við bara með rífandi sjálfstraust.“

„Mér fannst við byrja þetta eins og við ætluðum að verja eitthvað forskot, en það kann aldrei góðu verki að stýra að ætla að fara að verja eitthvað. Við þurftum að fara og sækja þennan sigur. Náðum að stoppa blæðinguna með góðri körfu og héldum áfram eftir það.“

Haukar hafa nú tekið báða leikina hér á Ásvöllum nokkuð örugglega, en þurfa að fara á Hlíðarenda og sækja sigur til að fá Íslandsmeistaratitilinn.

„Að sama skapi var nokkuð öruggur sigur hjá Val í síðasta leik þó munurinn hafi bara verið fjögur stig í lokin. Þetta eru tvö mjög jöfn lið. Dagsformið og hvernig leikmenn koma stemmdir skiptir miklu máli, svo getur þetta komið niður á hvoru megin boltinn dettur,“ sagði Ingvar Þór Guðjónsson.

 

Darri Freyr Atlasonvísir/bára dröfn
Darri: Augljós vandamál sem getur verið erfitt að leysa

„Þær skutu 48 prósent í þriggja stiga og tóku 17 sóknarfráköst,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, spurður hvað hafi farið úrskeiðis hér í kvöld.

„Við hjálpum þeim í að taka 17 sóknarfráköst með því að stíga ekki út og fara ekki á eftir boltanum og við hjálpum þeim í að skjóta 48 prósent í þriggja stiga með því að vera seinar að hlaupa að línunni og lélegar varnarskiptingar og stundum of lítið „effort“ sem er ekki nógu gott í úrslitarimmu.“

„Það sem er jákvætt við þetta er að þetta eru frekar augljós vandamál. Það sem er neikvætt er að það getur verið erfitt að leysa þau. Svo þurfum við að spila með meira efforti.“

Sóknarleikur Valsliðsins var á köflum ekki upp á marka fiska, en Darri hafði ekki miklar áhyggjur af því.

„Ég hef engar áhyggjur af sóknarleiknum. Við skorum 85 stig og það á að vera nóg til þess að vinna.“

„Það er ógeðslega erfitt að elta svona lengi og okkur fannst við vera að stoppa 20 sóknir í röð. Þegar karfan kemur þá er þetta brekka, en við töpum þessu ekki á síðustu fimm mínútunum heldur fyrstu 35,“ sagði Darri Freyr Atlason.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira