Íslenski boltinn

Rúnar: Himinlifandi með þessa spá

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Kristinsson var hress og kátur með spána.
Rúnar Kristinsson var hress og kátur með spána.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var alls ekki ósáttur við að KR væri spáð fjórða til fimmta sæti í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna í dag.

„Ég er himinlifandi. Það er engin pressa á okkur. Þetta er það sem menn hafa séð af okkur í vetur og í fyrra. Veturinn hefur verið erfiður og ekki margir stórir sigrar. Þetta hefur verið upp og ofan hjá okkur.“

KR spilar opnunarleik mótsins á Hlíðarenda á föstudag er þeir sækja Íslandsmeistara Vals heim. Rúnar segist vera nokkurn veginn búinn að leggja þann leik upp.

„Við þurfum að gefa okkur tíma til þess að byggja upp það lið sem við viljum og ég þarf meiri tíma með þeim leikmannahópi sem ég fékk upp í hendurnar. Ég mun væntanlega fá þann tíma. Við setjum samt miklar kröfur á okkur sjálfa. Við viljum vera ofar en okkur er spáð og menn vilja alltaf nálgast titilinn. Á sama tíma þekkjum við styrkleika annarra,“ segir Rúnar en er hann ánægður að byrja mótið á leik gegn Val?

„Það fer eftir því hvernig leikurinn fer. Ég held að það sé ágætt. Þetta er enginn úrslitaleikur og við munum reyna að gera þeim erfitt fyrir og reyna að ná í stig á Valsvelli. Við erum ekkert smeykir við að fara þangað.“

Það eru ekki allir leikmenn KR tilbúnir í slaginn gegn Valsmönnum.

„Það eru þrír lykilmenn í smá ströggli. Óskar Örn er ekkert búinn að spila síðustu tvo leiki hjá okkur. Skúli Jón er nýstiginn upp úr meiðslum og Kennie Chopart meiddist á æfingu í gær. Vonandi var það ekki alvarlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×