Erlent

Trump talaði um að þurrka flösu af öxl Macron

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump fylgdi eftir fullyrðingu sinni um að Macron væri með flösu með því að rífa í hönd hans eins og hans er háttur.
Trump fylgdi eftir fullyrðingu sinni um að Macron væri með flösu með því að rífa í hönd hans eins og hans er háttur. Vísir/AFP
Furðulegt atviki sem átti sér stað þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti og Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræddu við fréttamenn í Hvíta húsinu í dag hefur vakið mikla athygli. Trump þurrkaði þá það sem hann sagði að væri flasa af jakkafötum Macron með þeim orðum að „Við verðum að gera hann fullkominn“.

Ólíkt mörgum öðrum leiðtogum hefðbundinna bandalagsríkja Bandaríkjanna hefur Macron virst ná að mynda gott samband við Trump. Bandaríkjaforseti var í miðju kafi að lofa þetta sérstaka samband þeirra þegar hann greip fram í fyrir sjálfum sér.

„Við eigum mjög sérstakt samband. Reyndar skal ég ná þessari litlu flösu af,“ sagði forsetinn og þurrkaði af öxl Macron.

„Við verðum að gera hann fullkominn. Hann er fullkominn,“ sagði Bandaríkjaforseti á meðan Macron stóð hjá hlæjandi.

Macron er nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum þar sem hann reynir meðal annars að tala Trump ofan af því að rifta kjarnorkusamningi sem heimsveldin gerðu við stjórnvöld í Íran. Hann virðist eiga á brattann að sækja því Trump talaði um Íranssamninginn sem „geðveiki“ og „fáránlegan“ þegar þeir ræddu saman við fréttamenn.

Samskipti Trump við leiðtoga annarra þjóða hafa áður vakið athygli. Þannig þótti nítján sekúndna langt handaband hans við Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sérlega eftirminnilegt.


Tengdar fréttir

Hvetja Trump til að rifta ekki kjarnorkusamkomulaginu

Trump hefur ítrekað hótað því að ef bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu lagi ekki „hræðilega galla“ í samkomulaginu fyrir 12. maí muni hann beita viðskiptaþvingunum gegn Íran aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×