Innlent

Lýsa yfir miklum vonbrigðum með fjármálaáætlun næstu fimm ára

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Miðstjórn ASÍ gagnrýnir nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega.
Miðstjórn ASÍ gagnrýnir nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega. vísir/eyþór
Miðstjórn ASÍ gagnrýnir harðlega fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Stefnan sem birtist í áætluninni „mun klárlega torvelda gerð kjarasamninga á komandi misserum,“ samkvæmt ályktun sem ASÍ sendi frá sér í dag.

Fyrsta fjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar var kynnt var 4. apríl síðastliðinn og hefur hún verið gagnrýnd talsvert af stjórnarandstæðunni og verkalýðnum.  

„Með þessari fjármálaáætlun til næstu fimm ára ákveður ríkisstjórnin að veikja tekjustofna við brothættar efnahagshorfur og draga úr stuðningi í formi barnabóta og vaxtabóta,“ segir í ályktuninni. 

Of lítið sé gert til að mæta alvarlegum vanda á húsnæðismarkaði og fyrirséð að ekki verði byggt nægilega mikið til að mæta fyrirliggjandi þörf. 

Einnig segir í ályktuninni að ASÍ hafi lagt mikla áherslu á mikilvægi þess að velferðarkerfið verði endurreist og dregið verði úr skattbyrði þeirra tekjulægstu með því að ráðstafa í „það mikilvæga verkefni auknum tekjum ríkisins vegna hagvaxtar."

Þannig væri hægt að auka sátt í samfélaginu og tryggja að hlutdeild velferðar af landsframleiðslu komist á svipað stig og var fyrir hrun. 

ASÍ hefur jafnframt ákveðið að skipa ekki fulltrúa í Þjóðhagsráð vegna þess að of naumt sé skammtað til velferðar - og menntamála. 


Tengdar fréttir

Afgangur næsta árs áfram fastur í gólfum fjármálastefnunnar

Áfram er aðeins gert ráð fyrir afgangi í fjárlögum næsta árs sem nemur einu prósenti af landsframleiðslu sem er alveg við gólf fjármálastefnunnar sem var samþykkt af Alþingi. Það er afgangur upp á 25-29 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×