Innlent

Munu þurfa að vísa nýbökuðum mæðrum heim þrátt fyrir skort á heimaþjónustu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sængurlegudeildir eru að fyllast og mun þurfa að vísa nýbökuðum mæðrum og nýburum heim af spítala, þrátt fyrir að heimaþjónustu ljósmæðra njóti ekki við. Að sögn yfirljósmóður munu heilbrigðisstofnanir um landið ekki geta sinnt allri nauðsynlegri þjónustu við sængurkonur og nýbura, þrátt fyrir tilmæli ráðherra þess efnis.

Ljósmæður sem sinnt hafa heimaþjónustu við nýbakaðar mæður og nýbura lögðu niður störf í gær þar sem samningur þeirra við Sjúkratryggingar Íslands hefur ekki verið endurnýjaður. Áhrifa þessa er þegar farið að gæta á meðgöngu- og sængurkvennadeild Landspítalans.

„Þetta er 24 rúma deild og eftir því sem líður á daginn í dag þá mun deildin fyllast ef við getum ekki útskrifað, það er alveg ljóst,“ segir Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir.





Hilda Friðfinnsdóttir, yfirljósmóðir á Landspítalanum.Vísir/Skjáskot
Þótt starfsfólk heilsugæslu geti annast hluta þeirrar þjónustu sem ljósmæður alla jafna sinna í heimaþjónustu, eru þó ákveðnir þættir sem ljósmæður verða að sinna. „Þessir fyrstu dagar í lífi nýburans eru svolítið þannig að það eru ljósmæður sem sinna því. Fyrstu 7-10 dagar nýburans,“ segir Hilda. Til að mynda þurfi að taka blóðprufu úr barninu á þessum tíma, fylgjast með gulu og því hvort barn sé að nærast og þyngjast.

„Við höfum ekki tækifæri til þess að sinna öllum og verðum þess vegna að forgangsraða þannig að veikustu konurnar séu hér inni en þær sem eru hraustar og með heilbrigð börn, þær verða í rauninni að fara heim,“ segir Hilda. Hún kveðst finna fyrir því að staðan valdi áhyggjum meðal nýbakaðra foreldra, einkum í þeim tilfellum sem eldri börn bíða heima. „Við finnum fyrir því að fólk er kvíðið, það hugsar bara hvað verður um mig?“

Samningurinn sem um ræðir er ótengdur yfirstandandi kjarabaráttu ljósmæðra við ríkið en næsti samningafundur í þeirri deilu verður á fimmtudag. Unnið er að því að finna umgjörð þjónustunnar farveg en fréttastofa hefur sent fyrirspurn á velferðarráðuneytið og Sjúkratrygginar Íslands um stöðu mála við leit lausna. Engin svör höfðu borist þegar þetta er skrifað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×