Innlent

Óánægður með að fá ekki að vitja eigna úr brunanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrirtækið Geymslur segir að altjón hafi orðið á efri hæðum hússins.
Fyrirtækið Geymslur segir að altjón hafi orðið á efri hæðum hússins. Vísir/Rakel Ósk
Maður sem leigði geymslu á 3. hæð í húsnæði fyrirtækisins Geymslna við Miðhraun í Garðabæ sem brann fyrr í mánuðinum er ósáttur við að fá ekki tækifæri til að fara í gegnum leifarnar af eignum sínum.

Fyrirtækið segir að altjón hafi orðið á efri hæðum hússins en þeir sem leigðu geymslur á 1. hæð þurfa að vitja þeirra og tæma í vikunni.

Sjá einnig: Altjón á efri hæðum geymsluhúsnæðisins í Miðhrauni 

Geymslur tilkynntu leigjendum sínum í Miðhrauni í gær að altjón hafði orðið á 2. og 3. hæð hússins. Vátryggingafélag Íslands bæði þá sem leigðu geymslur á 1. hæð um að koma í vikunni og tæma þær.

Magnús Gunnarsson var með geymslu á 3. hæð en hann er ekki ánægður með að fá ekki tækifæri til að fara yfir leifarnar eftir brunann.

„Það situr svolítið í manni að maður fái ekki einu sinni að reyna að bjarga einhverju. Okkur er gefinn enginn séns. Það hefur bara verið tekin ákvörðun um að allt sé straujað á annarri og þriðju hæð, alveg sama hvað það er. Mér finnst þetta svolítið gróft,“ segir hann.

Þá gagnrýnir Magnús hversu skamman fyrirvara leigjendur fá til að vitja og tæma geymslurnar. Tilkynningin var send leigjendum í gær og þurfa þeir að tæma geymslurnar fyrir helgi. Þeir sem ekki komast í vikunni voru beðnir um að hafa samband við Geymslur sem allra fyrst. 

Ekki náðist í Ómar Jóhannsson framkvæmdastjóra Geymslna við vinnslu fréttar.


Tengdar fréttir

Eldurinn í Miðhrauni kviknaði út frá rafmagni

Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á eldsupptökum í iðnaðarhúsnæði við Miðhraun í Garðabæ í byrjun mánaðarins liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×