Innlent

Munu vakta tankinn í alla nótt

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Búið er að fækka slökkviliðsmönnum á vettvangi við Perluna.
Búið er að fækka slökkviliðsmönnum á vettvangi við Perluna. Vísir/Egill Adalsteinsson
„Það gengur í sjálfu sér ágætlega. Við erum búin að fækka mannskap núna, þannig að brunavaktin er að taka við,“ segir Sigurbjörn Guðmundsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Vísi. Hann segir að líklega verði fjórir til fimm á vaktinni við Perluna í nótt.

Búið er að opna tankinn þar sem eldurinn kom upp en það þarf að fylgjast áfram vel með til að tryggja að þar leynist ekki glóðahreiður.

„Það var gríðarlega erfið vinna að opna klæðningu og annað slíkt, það tók gríðarlega langan tíma. Núna er þetta að verða búið og þá tekur bara við vaktin að fylgjast með í nótt og sjá hvort að einhvers staðar kraumar undir.“

Um tvö hundruð manns var gert að yfirgefa Perluna í skyndi þegar eldurinn kom upp.Vísir/Egill Aðalsteinsson
Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað út og mikill viðbúnaður var við Perluna. Sigurbjörn segir að aðstæður slökkviliðsmanna í dag og í kvöld hafi verið erfiðar vegna klæðningarinnar. Þeir sáu aðeins reyk en lítinn eld sem þó augljóslega var í klæðningunni.

„Þetta er erfið bygging.“

Ekki er búið að staðfesta upptök eldsins en iðnaðarmenn voru að störfum þegar eldurinn kviknaði. Um tvö hundruð manns var gert að yfirgefa Perluna í skyndi þegar eldurinn kom upp. Vel gekk að rýma húsið og engin slys urðu á fólki. Áfram verður unnið á vettvangi í fyrramálið.

„Það er ekki mikill reykur eftir en mikil bleyta og ýmiss konar vinna eftir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×