Erlent

Í lífshættu eftir árás stuðningsmanna Roma

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árásin átti sér stað við Alton Pub við Walton Breck Road, skammt frá heimavelli Liverpool.
Árásin átti sér stað við Alton Pub við Walton Breck Road, skammt frá heimavelli Liverpool.
Karlmaður á sextugsaldri liggur þungt haldinn eftir að ráðist var á hann fyrir utan Anfield, heimavöll knattspyrnufélagsins Liverpool. Liðið mætti Roma í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi.

Árásin átti sér stað fyrir leikinn en tveir menn, sem sagðir eru vera ítalskir stuðningsmenn aðkomuliðsins, voru handteknir vegna málsins. Þeir eru grunaðir um banatilræði.

Þolandinn, sem er stuðningsmaður Liverpool að sögna breska ríkisútvarpsins, hlaut höfuðáverka og liggur nú milli heims og helju á sjúkrahúsi í borginni. Knattspyrnufélagið Liverpool sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem það sagði árásina vera hrotta- og hræðilega.

Vitni lýsa því hvernig ítölsku mennirnir tveir veittust að þeim breska og börðu hann með belti þangað til að hann féll til jarðar.

Þetta voru ekki einu átökin sem áttu sér stað við Anfield í gærkvöldi. Talið er að um 80 stuðningsmenn Roma hafi náð að lauma sér inn á áhangendasvæði Liverpool, með það eina markmið að valda óskunda. Myndbrot sýna meðvitundarlausan mann liggja í götunni eftir viðskipti sín við Rómverja. Einn aðkomumaður sést einnig haldandi á hamri er hann gengur meðal stuðningsmanna Liverpool.

Alls voru sjö karlmenn, á aldrinum 20 til 43 ára, handteknir í gærkvöldi og eru þeir grunaðir um allt frá eignaspjöllum til líkamsárása.

Leik Liverpool og Roma lauk með 5-2 sigri heimaliðsins. Þau mætast aftur í Rómarborg 2. maí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×