Erlent

Óttast óeirðir eftir sakfellingu gúrús

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Asram Bapu neitaði allri sök frá upphafi.
Asram Bapu neitaði allri sök frá upphafi. Vísir/Getty
Indverski lærimeistarinn Asaram Bapu var í morgun sakfelldur fyrir að hafa nauðgað 16 ára stelpu árið 2013. Bapu er þjóðþekktur gúrú á Indlandi - ekki síst fyrir umdeilda hegðun sína og framgöngu en hann segist sjálfur eiga sér milljónir fylgismanna.

Á vef breska ríkissjónvarpsins er þess meðal annars getið að Bapu eigi um 400 ashram um víða veröld. Ashram eru griðastaðir fyrir hindúa og þar hefur hinn 77 ára gamli gúrú kennt hugleiðslu og jóga í áratugi.

Sem fyrr segir var hann sakfelldur í morgun fyrir nauðgun en ætla má að hann muni áfrýja dómnum til hærra dómstigs. Hvaða refsing honum verður gerð vegna brotsins mun liggja fyrir síðar í dag. Lögmaður þolandans sagði í samtali við fjölmiðla ytra að hann gerði ekki ráð fyrir öðru en að gúrúinn fengi lífstíðardóm.

Lögreglan í Jodhpur, borginni þar sem dómurinn var kveðinn upp í morgun, er með hátt viðbúnaðarstig í dag af ótta við reiði áhangenda gúrúsins.

Viðbúnaðurinn er ekki að ástæðulausu. Annar indverskur gúrú, Gurmeet Ram Rahim, var dæmdur fyrir nauðgun í fyrra. Stuðningsmenn hans ærðust og út brutust miklar óeirðir. Í þeim létust 23.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×