Handbolti

Atli Már handarbrotinn og verður ekki meira með Haukum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Atli Már hefur verið frábær fyrir Hauka.
Atli Már hefur verið frábær fyrir Hauka. vísir/anton
Haukar hafa orðið fyrir miklu áfalli í úrslitakeppni Olís-deildar karla í handbolta en einn besti leikmaður liðsins í vetur, Atli Már Báruson, er handarbrotinn og verður ekki meira með.

Atli varð fyrir meiðslunum á æfingum fyrir fyrsta leikinn gegn ÍBV í undanúrslitum Íslandsmótsins í gær sem Haukarnir töpuðu á útivelli, 22-20. Haukar reyndu allt til að láta Atla spila en hann gat lítið beitt sér vegna meiðslanna.

Atli kom til Hauka frá Val fyrir tímabilið og skoraði 3,2 mörk að meðaltali í leik í deildinni, gaf 3,3 stoðsendingar og var með 3,7 löglegar stöðvanir í Olís-deildinni í vetur. Hann hefur verið algjör lykilmaður í Haukaliðinu og var frábær í fyrri leiknum á móti Val í átta liða úrslitunum.

Þrátt fyrir að vera rétthentur hefur Atli Már spilað mest hægra megin í vetur en Árni Þór Sigtryggson var ekki með vegna meiðsla í gær. Haukarnir eru því að missa menn í meiðsli á versta tíma en þeir fá nú átta daga til að undirbúa sig fyrir leik tvö á móti ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×