Innlent

Ofbeldi í garð lögreglumanna færist í aukana

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Lögreglumönnum er oftar hótað ofbeldi en áður.
Lögreglumönnum er oftar hótað ofbeldi en áður. Vísir/ANton
Verulega dró úr tilkynntum innbrotum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í marsmánuði samanborið við febrúar, eða um 48 prósent. Þannig voru tilkynnt innbrot 70 talsins í síðasta mánuði en 90 í febrúar.

Þrátt fyrir þessa þróun milli mánaða hafa það sem af er ári borist um 15 prósent fleiri tilkynningar um innbrot en bárust að meðaltali á sama tímabili síðastliðin þrjú ár.

Alls voru 746 hegningarlagabrot skráð í marsmánuði og eru það fleiri tilkynningar en bárust í febrúar þegar þau voru 680. Að sama skapi fjölgar tilkynningum um þjófnaði. Þær voru 271 í mars en 264 í febrúar.

Í afbrotatölfræði marsmánaðar vekur sérstaka athygli sá fjöldi atvika sem snerta ofbeldi gagnvart lögreglumanni. Þau voru níu í mars en það sem af er ári hafa verið 68 prósent fleiri slík atvik en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár.

Að sama skapi fjölgar atvikum þar sem lögreglumanni er hótað ofbeldi en það átti sér stað sex sinnum í mars og er það langt yfir meðaltali síðustu þriggja ára.

Þó nokkur fjölgun var á fíkniefnamálum hjá embættinu í mars auk þess sem fleiri umferðarlagabrot voru skráð, en ekki hafa fleiri umferðarlagabrot verið skráð í einum mánuði á höfuðborgarsvæðinu síðan í janúar 2016.

Þá fjölgar umferðarlagabrotum verulega á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við síðasta ár og voru þau 50 prósent yfir meðallagi síðustu þriggja ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×