Körfubolti

Komið að ögurstundu hjá Valskonum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Valur, Haukar, körfubolti, karfa, 2018, úrslit, Dominosdeildin, Domino's deild kvenna, úrslitakeppni
Valur, Haukar, körfubolti, karfa, 2018, úrslit, Dominosdeildin, Domino's deild kvenna, úrslitakeppni

Sigur er það eina sem kemur til greina hjá kvennaliðum Vals í körfubolta og handbolta í kvöld, ellegar verða andstæðingar þeirra krýndir Íslandsmeistarar.

Valur er 2-1 undir í einvíginu gegn Haukum í úrslitum Domino’s-deildar kvenna í körfubolta. Valskonur eru á stærsta sviðinu í fyrsta sinn en sagan er með Haukakonum í liði.

Frá því að úrslitakeppnin var tekin upp í kvennaflokki 1993 hafa Haukar sex sinnum komist í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn og þrisvar sinnum náð í þann stóra.

Helena Sverrisdóttir hefur stjórnað ferðinni í úrslitaeinvíginu en hún hefur verið með þrefalda tvennu í öllum þremur leikjunum. Aalyah Whiteside hefur dregið Valsvagninn í úrslitaeinvíginu en hún er með 27 stig að meðaltali í leik.

Haukar voru með frábæra 48% þriggja stiga nýtingu í síðasta leik og unnu frákastabaráttuna 43-26. Engu breytti þótt liðið fengi aðeins sex stig af bekknum.

Leikur Vals og Hauka hefst klukkan 18.00 á Hlíðarenda í kvöld.

Fram í lykilstöðu

Steinunn Björnsdóttir sækir að marki Vals Vísir/Vilhelm

Fram er einum sigri frá því að verða Íslandsmeistari í handbolta kvenna annað árið í röð og í 22. sinn alls.

Valur vann fyrsta leikinn í úrslitaeinvígi liðanna en Fram hefur unnið síðustu tvo og er í lykilstöðu.

Fram tryggði sér sigur í öðrum leiknum með því að vinna síðustu níu mínúturnar 7-1. Í þriðja leiknum snerist dæmið við. Þá byrjuðu Safamýrarstúlkur frábærlega og lögðu þar grunninn að sigrinum.

Valskonur söknuðu framlags frá Diönu Satkauskaite í síðasta leik en hún hefur glímt við meiðsli, líkt og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir sem hefur ekki getað beitt sér að fullu í síðustu tveimur leikjum og munar um minna.

Ragnheiður Júlíusdóttir hefur verið í aðalhlutverki í sóknarleik Fram en skyttan öfluga er með 22 mörk í úrslitaeinvíginu, eða 7,3 mörk að meðaltali í leik. Hún er markahæst í úrslitunum.

Leikur Fram og Vals hefst klukkan 20.00 í Safamýrinni í kvöld.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.