Skoðun

Ég varð að athlægi

Baldur Guðmundsson skrifar
Fyrir viku keypti ég jeppa, þvert á Bakþanka febrúarmánaðar. Mig langaði í bíl til að sinna áhugamálum mínum og myndi mæta tilfinnanlegum – og sennilega tilfinningalegum líka – skorti á stærri dekkjum. Yfirmaður minn kallaði þetta „midlife crisis“, í tveggja manna tali sem ég heyrði óvart. Bílinn keypti ég á miðvikudaginn, fyrir viku. Klukkan fjögur síðdegis kláraðist vinnudagurinn loksins og ég settist við stýrið, spenntur. Ég setti lykilinn í svissinn og sneri. Undarlegt. Ég sneri aftur. Þar sem ég mændi tómu augnaráði á ljóslaust mælaborðið rann það upp fyrir mér að nýi bíllinn minn færi ekki í gang.

Ég sat undir stýri drykklanga stund og reyndi að trúa þessu ekki. Ég sneri þriðja sinni en viðbragðið undir húddinu varð jafnvel enn máttlausara. Ég hringdi í konuna mína, í uppnámi, og sagði að hún yrði að stökkva heim í strætó og sækja börnin. Það var erfitt símtal, hafandi eytt mánuðum í að sannfæra hana um að það væri góð hugmynd að eignast tíu ára Cruiser.

Þau voru enn þyngri, þrepin upp á fjórðu hæð í vinnunni, enda hafði ég stært mig af nýja jeppanum allan daginn. Ég vatt mér að vinnufélaga og spurði í hálfum hljóðum. „Áttu nokkuð startkapla? Það er bíll hérna úti sem fer ekki í gang.“ Ég vonaði að úr þessu yrði ekki sena. „Ha!? Fer nýi bíllinn ekki í gang!?“ var þá hrópað, svo undir tók á vinnustaðnum og vonir mínar um að halda snefil af mannlegri reisn urðu að engu. Ég varð að athlægi. Eftir töluverða leit og mikið grín fann ég bjargvættinn. Sessunautur minn, reynslumikill bensínsali af gamla skólanum, gaf mér start og annaðist um leið svolitla sálgæslu.

Í dag fæ ég bílinn aftur úr viðgerð – og reisnina vonandi með.




Skoðun

Sjá meira


×