Erlent

Þrettán börn látin eftir árekstur lestar og rútu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ekkert viðvörunarkerfi var við lestarteinana sem ökumaðurinn ók yfir.
Ekkert viðvörunarkerfi var við lestarteinana sem ökumaðurinn ók yfir.
Þrettán börn eru látin eftir að lest hafnaði á skólarútu í norðurhluta Indlands í nótt. Ekki er vitað hversu margir voru í rútunni og óttast er að fleiri börn kunni að finnast látin.

Rútunni er sagt hafa verið ekið yfir lestarteina þegar slysið varð. Ekkert viðvörunarkerfi var til staðar sem hefði getað gefið til kynna að lest kæmi aðvífandi.

Ekki er nema vika síðan að rútu var ekið fram af þverhnípi þar í landi, með þeim afleiðingum að 24 börn létust.

Á vef breska ríkisútvarpsins eru rútuslysin tvö sögð áminning um bagalegt ástand vegakerfis Indlands. Umferðarslys séu tíð þar í landi, ekki síst vegna lítils viðhalds vega og bifreiða.

Héraðsyfirvöld í Uttar Pradesh, þar sem rútuslysið varð í nótt, hafa kallað eftir rannsókn á málinu. Þau ætla sér jafnframt að greiða fjölskyldum hinna látnu skaðbætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×