Erlent

Mörgæs setti köfunarmet

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Líkamsbygging keisaramörgæsa bendir til að þær ættu ekki að geta verið mikið lengur en 8 mínútur í kafi.
Líkamsbygging keisaramörgæsa bendir til að þær ættu ekki að geta verið mikið lengur en 8 mínútur í kafi. Vísir/Getty
Vísindamenn á Suðurskautslandinu telja sig hafa mælt lengstu köfun mörgæsar frá því að mælingar hófust. Talið er að keisaramörgæsin sem um ræðir hafi verið 32,2 mínútur í kafi, sem er heilum 5 mínútum lengur en fyrra köfunarmet.

Keisaramörgæsir, sem aðeins lifa á Suðurskautinu, eru stærsta mörgæsategund jarðar og hafa lengi verið rómaðar fyrir köfunarhæfileika sína. Þær hafa sést kafandi á 500 metra dýpi, í jökulköldum og óblíðum sjónum við Suðurskautslandið.

Nýja köfunarmetið skaut upp kollinum eftir að vísindamenn tóku að greina gögn sem þeir öfluðu sér með staðsetningarbúnaði sem komið var fyrir á 20 keisaramörgæsum árið 2013. Markmiðið í upphafi var að kanna æxlun mörgæsa en það var fljótt slegið út af borðinu - staðsetningabúnaðinum hafði óvart verið komið fyrir á hópi keisaramörgæsa sem makast ekki. Þess í stað verja mörgæsirnar mest öllum tíma sínum við veiðar.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að keisaramörgæsir ferðist lengra og kafi dýpra en áður hefur verið talið. Mörgæsirnar ferðust allt frá 273 km til 9000 km á rannsóknartímabilinu ásamt því að kafa frá 1 mínútu upp í fyrrnefndar 32,2 mínútur.

Niðurstöður rannsóknarinnar má nálgast hér og hér að neðan má sjá myndband sem sýnir ferðalag mörgæsanna árið 2013.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×