Erlent

Lögmaður Trump neitar að bera vitni

Kjartan Kjartansson skrifar
Cohen hefur í mörg horn að líta þessa dagana. Klámmyndaleikkona hefur stefnt honum og alríkislögreglan rannsakar hann.
Cohen hefur í mörg horn að líta þessa dagana. Klámmyndaleikkona hefur stefnt honum og alríkislögreglan rannsakar hann. Vísir/AFP
Michael Cohen, persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, ætlar að nýta rétt sinn til að bera ekki vitni í máli sem klámmyndaleikkona höfðaði til að losna undan samkomulagi um þagmælsku sem hann gerði við hana. Cohen telur að vitnisburður sinn gæti haft áhrif á sakamálarannsókn á viðskiptum hans.

Stephanie Clifford, betur þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels, höfðaði málið til að geta tjáð sig um kynferðislegt samband sitt við Trump fyrir rúmum áratug. Cohen greiddi henni 130.000 dollara, að sögn úr eigin vasa, til að þegja um framhjáhaldið rétt fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Síðan þá hefur komið í ljós að alríkislögreglan FBI hefur Cohen til rannsóknar, meðal annars vegna greiðslunnar til Clifford. Húsleit var gerð á skrifstofu, heimili og hótelherbergi Cohen fyrr í mánuðinum.

Cohen sagði dómaranum í máli Clifford í gær að hann bæri fyrir sig fimmta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar og neitaði að bera vitni. Viðaukinn kveður á um rétt fólks til að bendla ekki sjálft sig við glæp.

Vísaði hann til alríkisrannsóknarinnar á sér. Lögmenn Cohen hafa jafnframt óskað eftir því að gert verði níutíu daga hlé á meðferð málsins.

Gagnrýndi aðstoðarmenn Clinton fyrir að neita að bera vitni

Þegar uppvíst varð um greiðslu Cohen til Clifford bar lögmaðurinn því við að hann hefði greitt féð úr eigin vasa án þess að forsetinn hefði endurgreitt honum. Á meðal þess sem er til rannsóknar er hvort að greiðslan hafi brotið gegn lögum um kosningaframlög og hvort að Cohen hafi fengið lán fyrir greiðslunni á fölskum forsendum.

Washington Post segir ekki óalgengt að sakborningar sem standa bæði frammi fyrir opinberri rannsókn og einkamáli óski eftir hléi í einkamálinu til að forðast að bera vitni eiðsvarnir og að afhenda skjöl sem gætu bendlað þá við glæpi.

Hins vegar hefur verið rifjað upp að Trump var afar gagnrýninn á aðstoðarmenn Hillary Clinton, mótherja hans í kosningunum árið 2016, sem neituðu að bera vitni fyrir þingnefnd sem rannsakaði tölvupósta hennar þegar hún var utanríkisráðherra.

„Mafían notar fimmta viðaukann. Ef þú ert saklaus, hvers vegna ertu að nota fimmta viðaukann?“ sagði Trump við stuðningsmenn sína á kosningafundi í aðdraganda kosninganna.

Washington Post segir að Trump hafi sjálfur borið fyrir sig fimmta viðaukanum til að forðast að svara 97 spurningum í vitnisburði í tengslum við skilnað árið 1990.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×