Umfjöllun og viðtöl: Fram - Valur 26-22 │ Fram Íslandsmeistari annað árið í röð

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Leikmenn Fram fagna í kvöld.
Leikmenn Fram fagna í kvöld. Vísir/Vilhelm
Fram er Íslandsmeistari annað árið í röð. Liðið vann fjögurra marka sigur á Val, 26-22, í fjórða leik úrslita einvígisins. Fram vann einvígið 3-1 og tryggði sér íslandsmeistaratitilinn á heimavelli í kvöld. 

Það var vitað mál að Valur var ekki tilbúið að ljúka keppni í kvöld og mættu Valsstúlkur að krafti í leikinn. Valur komst í 3-0 en Fram vaknaði þá til lífs og jafnaði leikinn í 3-3 eftir 10 mínútna leik. Eftir það var þetta stál í stál. Liðin skiptust á að skora og leiða leikinn en munurinn aldrei meira en eitt mark í fyrri hálfleiknum. Staðan í hálfleik var 14-13, Fram í vil.

Valur var betri aðilinn í upphafi síðari hálfleiks og staðan eftir 10 mínútur, 16-19. Það gekk lítið upp hjá Fram og var hætt við því að þær myndu missa haus og gefa eftir en svo var heldur betur ekki. Stefán Arnarsson, þjálfari Fram, tók leikhlé og róaði sínar stelpur niður sem urðu í kjölfarið agaðar og skipulagðar í sínum aðgerðum. Fram vann loka kafla leiksins 10-3 sem skilaði þeim fjögurra marka sigri, 26-22. 

Af hverju vann Fram? 

Þær vildu þetta meira í dag, það var algjörlega augljóst að þegar þær lentu þremur mörkum undir í seinni hálfleik að það væri ekki í boði, þær ætluðu sér að vinna titilinn á heimavelli í kvöld. 

Hverjar stóðu uppúr? 

Steinunn Björnsdóttir var gjörsamlega frábær í leiknum, algjör lykilmaður í leik Fram varnar- og sóknarlega. Steinunn skoraði 4 mörk en þær Hildur Þorgeirsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru með 6 mörk hvor. Guðrún Ósk Maríasdóttir átti slakan fyrri hálfleik en datt í gang á besta tíma og lokaði markinu undir lok síðari hálfleiks. 



Í liði Vals voru það Díana Dögg Magnúsdóttir og Morgan Marie Þorkelsdóttir sem áttu góðan leik í dag ásamt Önnu Úrsulu Guðmundsdóttur. Chantel Pagel átti ágætis leik á köflum í markinu.  



Hvað gekk illa? 

Markvarslan í fyrri hálfleik gekk ansi illa, en lítil sem engin varsla var hjá báðum liðum. Mikið var um sóknarfeila og tapaða bolta hjá báðum liðum en góður varnarleikur varð til þess að liðin misstu ítrekað frá sér boltann. 

 

Steinunn: Höfðum alltaf trú á því að við yrðum Íslandsmeistarar

Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, var valin mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. Steinunn var frábær í leiknum í kvöld og var himinlifandi við sinn árangur og sigurinn í kvöld.

„Geðveik úrslitakeppni, geggjað einvígi, geggjuð spenna og gaman að klára þetta á heimavelli.“  

„Okkur langaði þetta svo virkilega mikið. Þetta hafa verið baráttuleikir fram og tilbaka áhlaup frá báðum liðum. Okkar áhlaup kom á lokakaflanum í dag og það skilaði okkur sigrinum.“ sagði Steinunn en Fram átti frábæran lokakafla í kvöld þegar þær snéru leiknum úr 16-19 í 26-22. 



Það er langt síðan það hefur verið jafn mikil stemning á leik í Olís-deild kvenna og var í kvöld. Mikil læti voru í stuðningsmönnum beggja liða allt frá fyrstu mínútu og var vel mætt. 

„Þetta var ótrúlegur stuðningur og ég verð að hrósa Völsurum, þessi hópur hjá þeim var sturlað skemmtilegur. Þeir voru ekkert dónalegir, voru bara skemmtilegir og það má vel taka þá til fyrirmyndar. Framararnir voru frábærir líka, voru miklu fjölmennari en Valsmenn og létu vel í sér heyra. Þetta er svo ógeðslega skemmtilegt, ég veit hreinlega ekki hvað ég á að segja.“ sagði Steinunn sem átti erfitt með að lýsa tilfinningum sínum, en gleðin var allsráðandi hjá henni. 

Fram byrjaði mótið rólega en eftir áramót fór að myndast það ógna sterka lið sem hópurinn hafði uppá að bjóða. Steinunn sagði að leikmenn hefðu alltaf haft trú á þessum hópi þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmenn í meiðsli. 

„Við höfðum alltaf trú á því að við myndum klára þetta mót en eftir að við endurheimtum liðið okkar allt til baka þá fór þetta að gerast“ sagði Steinunn sem þurfti að lokum að hlaupa frá til að taka við verðlaunum 

 

Anna Úrsula: Þær vildu þetta bara meira, Til hamingju Fram

„Þær vildu þetta bara meira og að lokum uppskáru þær því sem þær sáðu“ sagði Anna Úrsula Guðmundsdóttir, leikmaður Vals, að leik loknum.

„Við fórum illa með færin á þessum loka kafla þegar við missum þær frá okkur. En þegar maður getur labbað útaf vellinum sáttur og það gerðu allar sitt besta þá er ekki hægt að biðja um neitt meira.“ sagði Anna, sem sagðist labba sátt frá borði í dag. Það er engin skömm að tapa fyrir jafn sterku liði og Fram. 

„Þetta er það sem hefur verið gallinn hjá okkur undanfarið að við missum boltann mikið frá okkur beint fyrir framan vörnina þeirra. Fram refsar fyrir svoleiðis með marki strax í bakið og það var bara það sem gerðist í dag líka.“ 

Valur átti gott tímabil, liðið tapaði ekki leik fyrir áramót, fyrsti tap leikur þeirra var í 14.umferð og þá einmitt gegn Fram. Anna segir að Valskonur geti verið sáttar með tímabilið  

„Það er kjánalegt að ég sé að segja eitthvað, ég er bara ný. En stelpurnar hafa staðið sig vel í vetur og eru deildarmeistarar, mér finnst það bara frábært. Liðið má vera sátt við þetta tímabil og eiga að halda svona áfram.“

Anna Úrsula óskaði eftir betri mætingu og góðum stuðningi á facebook í dag, þar sagðist hún hafa séð góðan stuðning á körfuboltaleik dagsins og vildi sjá það sama í Safamýrinni. Hennar kalli var svarað og ekki hægt að segja annað en Valur hafi fengið frábæran stuðning frá sínu fólki í dag

„Ég horfði á körfuboltaleikinn í sjónvarpinu og þar voru allir mættir með mikil læti, ég vildi sjá þetta hjá okkur líka. Það mættu síðan allir hingað og þeir voru líka komnir á undan okkur og voru með læti þegar við vorum að hita upp. Svona er bara úrslitakeppnin en ég vona bara að þetta verði svona áfram og meira yfir veturinn þá líka. Þetta er drullu gaman þegar stuðningurinn er svona. Ég er ótrúlega ánægð með þetta og að vera hluti af þessari heild.“ sagði Anna Úrsúla að lokum

 



Ágúst Þór: Stoltur þjálfari Vals í dag

„Ég var mjög ánægður með leik stelpnanna í kvöld“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, að leik loknum.

„Mér fannst við vera betri stærsta partinn af leiknum og við vorum í góðri stöðu í seinni hálfleik. Við gerðum okkur svo sek um alveg hrikaleg mistök og í raun og vera færðum við þeim sigurinn. Við fórum í það að missa boltann frá okkur, köstuðum honum útaf hvað eftir annað. Þetta voru dýr mistök sem lið eins og Fram refsar fyrir.“ sagði Ágúst Þór en hann var heilt yfir ánægður með leikinn og frammistöðu Vals í kvöld

„Við vorum nálægt því að komast í oddaleik en ég get sagt það að Fram er með besta liðið, þær áttu skilið að vinna þennann titil og ég óska þeim til hamingju með hann.“

Valur varð deildarmeistari Olís-deildarinnar og áttu þær þann titil skilið eftir mjög gott tímabil en er Ágúst Þór sáttur við tímabilið í heild sinni? 

„Ég vildi nátturlega vinna þennann titil en ég get ekki annað sagt en að ég sé sáttur. Við erum deildarmeistarar, það er erfiðasti titillinn að vinna. Við sýndum mikinn stöðuleika og við veittum Fram alvöru keppni hérna í úrslita einvíginu. Ég er mjög stoltur og ánægður með mitt lið. Við erum með ungar stelpur, allt niður í 4. flokk sem voru að spila í dag og í öllu úrslita einvíginu.“ sagði Ágúst Þór um tímabilið og liðið í heild sinni en hann var einnig ánægður með stuðninginn sem liðið fékk í vetur og þá sérstaklega í úrslitakeppninni.

„Stuðningurinn hjá báðum liðum var frábær í dag. Valsmenn hafa stutt vel við bakið á stelpunum í vetur, ég er ánægður með þá og ég er stoltur af því að vera þjálfari Vals í dag.“ sagði Ágúst Þór að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira