Viðskipti innlent

Yfirframleiðandi segir skilið við CCP

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Andie Nordgren hefur verið yfirframleiðandi EVE Online frá árinu 2014.
Andie Nordgren hefur verið yfirframleiðandi EVE Online frá árinu 2014. Vísir/ANton
Andie Nordgren, yfirframleiðandi geimtölvuleiksins EVE Online, hefur ákveðið að segja skilið við CCP. Uppsögn hennar tekur gildi í júní.

Í færslu sem hún birti á spjallborði leiksins, og reifuð er á Polygon, segir Nordgren að fjölskylduástæður búi að baki ákvörðuninni.

Ferðinni sé heitið til Svíþjóðar þar sem hún ætlar sér að ala upp börnin sín, nálægt restinni af fjölskyldunni. „Ég vildi að ég gæti verið á tveimur stöðum í einu,“ skrifar Nordgren. „Ég hef mikla ástríðu fyrir EVE og framtíð leiksins og það er með miklum trega sem ég yfirgef CCP, EVE Online og Ísland.“

Í færslu sinni segist hún jafnframt bera fullt traust til allra hinna hæfileikaríku starfsmanna CCP og að þeir njóti stuðnings Hilmars Veigars Péturssonar, forstjóra CCP.

Nordgren hefur unnið við framleiðslu EVE í átta ár og var útnefnd yfirframleiðandi leiksins árið 2014. Hún hefur verið í framlínu fyrirtækisins allar götur síðan og var það meðal annars Nordgren sem tilkynnti heimsbyggðinni að spilun EVE yrði ókeypis árið 2016.

Á Twitter-síðu sinni segist Nordgren þó ekki vera búin að segja skilið við tölvuleikjabransann fyrir fullt og allt. Hún muni fljótlega hefja störf fyrir tölvuleikjaframleiðandann Unity, sem er með aðsetur í Kaupmannahöfn.

EVE Online mun fagna 15 ára afmæli í maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×