Erlent

Úranus lyktar eins og fúlegg

Kjartan Kjartansson skrifar
Voyager 2 tók þessa mynd af Úranusi þegar geimfarið þeyttist fram hjá árið 1986.
Voyager 2 tók þessa mynd af Úranusi þegar geimfarið þeyttist fram hjá árið 1986. NASA/JPL-Caltech
Athuganir á reikistjörnunni Úranusi hafa leitt í ljós að brennisteinsvetni er að finna í efstu lögum skýjahulunnar sem umlykur hann. Litlar líkur eru þó á því að óþefurinn yrði mönnum ofviða.

Stjörnufræðingar notuðu innrauðan sjónauka á Havaí til að efnagreina efstu lög lofthjúps gasrisans Úranusar sem er næst ysta reikistjarnan í sólkerfinu okkar. Efnasamsetning lofthjúpsins hefur legið á huldu þrátt fyrir framhjáflug Voyager 2-geimfarsins og aðrar rannsóknir frá jörðinni.

Úranus er eini gasrisinn í sólkerfinu þar sem brennisteinsvetni, sem oft er talað um að lykti eins og fúlegg, hefur fundist í lofthjúpnum. Á Júpíter og Satúrnusi hefur ammóníak fundist í skýjum fyrir ofan lofthjúpinn. Uppgötvunin gefur vísindamönnunum vísbendingu um myndun og þróun Úranusar.

Í frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA er haft eftir Patrick Irwin, aðalhöfundi rannsóknarinnar við Oxfordháskóla, að menn þyrftu ekki að hafa miklar áhyggjur af óþefnum við Úranus þó ekki komi það til af góðu.

„Köfnun og vosbúð í mínus 200°C köldum lofthjúpnum sem er að mestu leyti úr vetni, helíum og metani tæki sinn toll löngu áður en lyktin gerði það,“ segir Irwin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×