Erlent

Trump lýsir rassíu hjá lögmanni sínum sem árás á Bandaríkin

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hellti úr skálum reiði sinnar um rassíurnar á fundi með herforingjum í gær. Þá hafði enn ekki verið greint frá þeim opinberlega.
Trump hellti úr skálum reiði sinnar um rassíurnar á fundi með herforingjum í gær. Þá hafði enn ekki verið greint frá þeim opinberlega. Vísir/AFP

Húsleitir bandarísku alríkislögreglunnar FBI hjá lögmanni Donalds Trump í gærmorgun voru „árás á landið okkar í raunverulegum skilningi“ að mati forsetans. Trump sagði fréttamönnum að hann þyrfti að sjá til hvort að hann léti reka Robert Mueller, sérstakan rannsakanda dómsmálaráðuneytisins.

FBI gerði rassíu á skrifstofu, íbúð og hótelherbergi Michaels Cohen, persónulegs lögmanns Trump til margra ára, í gærmorgun. Svo virðist sem að leitirnar tengist 130.000 dollara greiðslu hans til klámmyndaleikkonu sem hefur sagst hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump.

Það var embætti ríkissaksóknara Bandaríkjanna fyrir New York-ríki sem stóð að aðgerðinni en talið er að hún hafi byggst á upplýsingum sem Mueller hafi fundið og komið áfram.

Washingon Post segir að verið sé að rannsaka Cohen fyrir möguleg bankasvik, brot á kosningalögum og önnur fjársvik.

Margir sagt honum að reka Mueller

Trump brást ókvæða við rassíunum þegar fréttamenn spurðu hann út í þær í gær. Kallaði hann þær „skammarlega“ og lýsti þeim ranglega þannig að FBI hefði „brotist inn“ til Cohen. Endurtók hann möntru sína um „nornaveiðar“ gegn sér.

„Við sjáum til hvað kann að gerast. Margir hafa sagt: „Þú ættir að reka hann“,“ sagði Trump þegar hann var spurður hvers vegna hann ræki ekki Mueller. Sakaði hann starfslið Mueller jafnframt um að vera hlutdrægt gegn sér.

Forsetinn lét ekki staðar numið þar og réðst að Jeff Sessions, dómsmálaráðherra sínum. Trump hefur verið honum bálreiður allt frá því að Sessions sagði sig frá öllum málum sem vörðuðu Rússarannsóknina svonefndu í fyrra. Eins gagnrýndi hann Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherrann, sem hefur umsjón með Rússarannsókninni.

„Þetta er árás á landið okkar í raunverulegum skilningi, þetta er árás á það sem við stöndum öll fyrir,“ sagði Trump.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.