Viðskipti innlent

Samherji kaupir búnað af Völku fyrir 2,5 milljarða

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Frá vinstri: Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku, Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, Helgi Hjálmarsson, framkvæmdarstjóri Völku og Atli Dagsson, tæknistjóri Samherja.
Frá vinstri: Ágúst Sigurðarson, markaðsstjóri Völku, Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, Helgi Hjálmarsson, framkvæmdarstjóri Völku og Atli Dagsson, tæknistjóri Samherja. Aðsend mynd
Samherji hefur ákveðið að festa kaup á nýjum búnaði frá íslenska hátækni fyrirtækinu Völku. Kaupin hljóða upp á 20 milljónir evra, um 2,5 milljarðar íslenskra króna miðað við gengi dagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Völku.

„Verkefnið er mjög metnaðarfullt og verða nýju vinnslukerfin vafalítið þau fullkomnustu sem þekkjast í matvælavinnslu í heiminum,“ segir Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku.

Um er að ræða sex nýjar vatnsskurðarvélar, þrjá ferskfiskflokkara, þrjá flokkara fyrir frosna bita og tengdan búnað frá Völku. Tækin verða sett upp í vinnsluhúsum Samherja á Akureyri og Dalvík.

Hluti búnaðarins verður settur upp hjá Útgerðarfélagi Akureyringa (ÚA) í sumar en stærsti hluti vinnslubúnaðarins verður settur upp í nýrri fiskvinnslu Samherja á Dalvík. Áætlað er að hún verði tilbúin um mitt næsta ár.

Uppsetning nýju vélanna verður til þess að landvinnslur Samherja munu verða þær fullkomnustu sem þekkjast í heiminum

Íslendingar leiðandi í tækniframförum tengdum sjávarútvegi

Helgi segir þann árangur sem náðst hefur hérlendis þegar kemur að tækniframförum í vinnslu og veiðum hafa orðið til úr einstöku samstarfi iðnaðar og sjávarútvegs. „Það er ljóst að án slíks samstarfs hefði sá árangur sem náðst hefur ekki verið mögulegur.

Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, tekur í sama streng.

„Við teljum að í samstarfi við Völku munum við þróa fiskvinnsluna til enn frekari sjálfvirkni á næstu árum. Við erum að stíga stór skref inn í framtíðina og ætlum okkur að vera leiðandi í heiminum þegar kemur að framleiðslu á hágæða fiskafurðum fyrir kröfuhörðustu viðskiptavinina.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir samstarfið við Völku vera nýjustu birtingarmynd í stefnu fyrirtækisins um að vinna náið með íslenskum fyrirtækjum að tæknilausnum í sjávarútvegi.

„Ég er mjög ánægður með útkomuna. Á síðustu árum hefur okkur tekist að skapa margar lausnir á ýmsum sviðum veiða og vinnslu í samstarfi við framsækin íslensk iðnfyrirtæki. Þær lausnir hafa síðan reynst arðbær útflutningsframleiðsla sem hefur verið seld um allan heim.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×