Íslenski boltinn

Sjáðu markasúpuna sem tryggði Val Lengjubikarinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Valur sýndi að það er besta liðið á Íslandi þegar að það vann Grindavík, 4-2, í úrslitaleik Lengjubikarsins á Eimskipsvelli Þróttara í Laugardalnum í gærkvöldi.

Haukur Páll Sigurðsson og Guðjón Pétur Lýðsson skoruðu sitthvort markið fyrir Valsmenn sem komust í 2-0 og 3-1 en Sigurður Egill Lárusson stal senunni með tveimur mörkum og stoðsendingu í seinni hálfleik.

Valsmenn, sem urðu Íslandsmeistarar með yfirburðum síðasta sumar, fóru rólega af stað í Reykjavíkurbikarnum í vetur en settu í fluggírinn í Lengjubikarnum. Liðið vann alla fimm leiki sína í riðlakeppninni og tók svo Stjörnuna, 3-1, í undanúrslitum.

Í heildina vann Valur sjö leiki í Lengjubikarnum með markatölunni, 21-4. Grindavík var fyrir leikinn búið að spila sex leiki í Lengjubikarnum og fá aðeins á sig tvö mörk en Valur tvöfaldaði það á 90 mínútum.

Valur á eftir einn mótsleik áður en Pepsi-deildin hefst en það er Meistaraleikur KSÍ á móti bikarmeisturum ÍBV 19. apríl. Grindjánar eru búnir fram að móti en þeir mæta FH í fyrstu umferð 28. apríl.

Valur spilar stórleik á móti KR 27. apríl klukkan 20.00 sem verður annar af tveimur upphafsleikjum Pepsi-deildarinnar 2018.

Mörkin úr leiknum í gær má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×