Innlent

Lögreglan að fá forræði yfir máli Sunnu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sunna Elvíra er nýkomin til landsins.
Sunna Elvíra er nýkomin til landsins. Vísir/Egill
Íslenska lögreglan mun á næstu dögum fá formlegt forræði yfir rannsókn á máli Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur. Það sem vantar upp á er að lögreglunni berist málsskjöl frá spænsku lögreglunni sem eru væntanleg.

Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn í samtali við Vísi en Rúv greindi fyrst frá.

„Við erum að bíða eftir þessum gögnum formlega þar sem þau koma til okkar með hefðbundnum hætti,“ segir Karl Steinar en gögnin er á spænsku og því þarf að þýða þau yfir á íslensku.

Sunna Elvíra kom til landsins í gær og var lögð inn á Grensásdeild Landspítalans. Hún var ekki handtekin við heimkomuna og er ekki í farbanni.

„Þessi þvingunarráðstöfum gagnvart henni var frá spænskum yfirvöldum en ekki okkur þannig að við höfum enga ákvörðun tekið gagnvart henni,“ segir Karl Steinar sem segir að eftir að farið verði yfir gögnin verði staðan endurmetin.

„Svo verður það með vísan til þess þegar þessi gögn koma hvaða áhrif mun það hafa, hvort það verði fleiri sem þurfi að taka til skýrslutöku eða ekki,“ segir Karl Steinar.

Sunna hafði dvalið á sjúkrahúsi á Spáni síðan um miðjan janúar, samtals í tæpa þrjá mánuði, en hún slasaðist alvarlega eftir fall á heimili hennar og eiginmanns hennar, Sigurðar Kristinssonar. Hann var handtekinn hér á landi í janúar í tengslum við fíkniefnainnflutning og var Sunna í kjölfarið sett í farbann, sem var aflétt í síðustu viku. Í gær bárust svo fréttir af því að Sigurður og móðir Sunnu hefðu verið ákærð fyrir skattalagabrot.


Tengdar fréttir

Sunna Elvíra komin til landsins

Sunna var flutt með sjúkraflugi frá Spáni í dag og lenti vélin á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir klukkan 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×