Enski boltinn

Versta vika Pep Guardiola á þjálfaraferlinum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reiður Pep Guardiola.
Reiður Pep Guardiola. Vísir/Getty
Manchester City gat á síðustu sjö dögum tryggt sér bæði sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar sem og endanlega tryggt sér enska meistaratitilinn. Niðurstaðan var önnur.

Manchester City datt út 5-1 samanlagt á móti Liverpool í Meistaradeildinni og tapaði niður 2-0 forystu á móti nágrönnum sínum í Manchester United þegar titilinn var innan seilingar.

Manchester City liðið hafði sett félagsmet í vetur með því að spila 30 deildarleiki í röð án þess að tapa og með því að vinna 20 heimaleiki í röð í öllum keppnum. Fyrsta tapið kom ekki fyrr en í merkingalausum lokaleik á móti Shakhtar Donetsk í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.





Fyrir þessa viku þá var Manchester City aðeins búið að tapa samtals fjórum leikjum á öllu tímabilinu sem spannar nú orðið átta mánuði. Liðið tapaði næstum því jafnmörgum á sex dögum.

Þetta er líklega versta vika Pep Guardiola á þjálfaraferlinum en hann þurfti að horfa á seinni hálfleikinn í gær upp í stúku eftir að dómari leiksins tók illa í mótmæli spænska stjórans í hálfleik.

Það má þá taka það fram að í öllum þessum þremur leikjum voru atriði þar sem dómgæslan féll ekki með Manchester City liðinu. Kannski skiljanlegt að Pep Guardiola væri orðin pirraður í gær þegar löglegt mark var tekið af liðinu hans.

Versta vika Pep Guardiola á þjálfaraferlinum?

4. apríl 2018: 3-0 tap á móti Liverpool í Meistaradeildinni

7. apríl 2018: 3-2 tap á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni

10. apríl 2018: 2-1 tap á móti Liverpool í Meistaradeildinni

Það er ekki eins og verkefnið verði auðveldara í næsta leik því þá þarf City liðið að fara í heimsókn til Tottenham á Wembley.  Þar gæti alveg eins fjórða tapið í röð dottið inn.

Þetta eru hörð örlög fyrir liðið sem var að leika sér að ensku deildinni stærsta hluta tímabilsins. Eins og síðustu ár þá gengur Pep Guardiola illa að ná takmörkum sínum í Meistaradeildinni.

Manchester City getur samt ekki tryggt sér titilinn í þeim leik. Liðið verður enskur meistari en bara ekki alveg strax. Fyrst á dagskrá hjá Guardiola og lærisveinum hans er að vinna sig út úr þessari taphrinu sem herjar á liðið þessa dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×