Enski boltinn

Vill ekki selja Liverpool markvörðinn sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aeksandar Kolarov fagnar sigiri Roma með Alisson i gærkvöldi.
Aeksandar Kolarov fagnar sigiri Roma með Alisson i gærkvöldi. Vísir/Getty
Enska félagið Liverpool og ítalska félagið Roma tryggðu sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í gærkvöldi. Hjá Roma spilar leikmaður sem Liverpool vill kaupa í sumar og hjá Liverpool er aðalmaðurinn leikmaður sem Roma seldi síðasta sumar.

Liverpool er nú að leita sér að framtíðarmarkverði og hefur sýnt brasilíska markverðinum Alisson hjá Roma mikinn áhuga.

Roma seldi Mohamed Salah til Liverpool síðasta sumar fyrir „alltof“ lítinn pening en Salah hefur skorað 39 mörk á sínu fyrsta tímabili með Liverpool-liðinu. Kaupin á Salah eru farin að vera ein bestu kaupin í sögu Liverpool.

Roma er hinsvegar ekki á því að leyfa Liverpool að taka frá sér annan stjörnuleikmann með bjarta framtíð fyrir sér.

Guardian segir frá því í morgun að Roma ætli að halda þessum 25 ára markverði sem hélt hreinu á móti Barcelona í gærkvöldi.

James Pallotta, forseti Roma, hélt upp á sigurinn á Börsungum með því að hoppa út i gosbrunninn á Piazza del Popolo í miðbæ Rómar.

Pallotta segist vera mikill aðdáandi brasilíska markvarðarins. „Ég elska hann og hef aldrei verið á því að selja hann. Ég hef alltaf sagt að hann væri frábær og nú er að sýna hversu góður hann er,“ hefur  Guardian eftir James Pallotta.





Kannski er þetta að mörgu leiti undir Alisson komið og hvort að hann vilji komast til stærra félags.

Liverpool fær hann örugglega aldrei á einhverju útsöluverði eins og Mohamed Salah og þá hefur franska liðið Paris Saint Germain einnig áhuga á þessum flotta markverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×