Viðskipti innlent

Ísland komið á toppinn í fjarskiptum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Houlin Zhao í ræðustól á samkomunni í morgun.
Houlin Zhao í ræðustól á samkomunni í morgun. Vísir/Böddi
Ísland er í fyrsta sæti í þróun fjarskiptainnviða í samantekt Alþjóðafjarskiptasambandsins miðað við árið 2017. Þetta kom fram á morgunverðarfundi Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins sem fram fór á Grand hótel í morgun. Þar tók Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra við viðurkenningu frá Alþjóðafjarskiptasambandinu vegna árangursins.

Suður-Kórea var í efsta sæti listans fyrir árið 2016 en þá sat Ísland í öðru sæti. Þjóðirnar hafa því sætaskipti í toppsætum listans. Næstu lönd á eftir eru Sviss, Danmörk, Bretland og Kína sem öll voru á svipuðum slóðum árið áður. Raunar eru litlar breytingar á listanum á milli ára.

Houlin Zhao, aðalritari Alþjóðafjarskiptasambandsins, afhenti ráðherra viðurkenninguna og ávarpaði samkomuna. Hann sagði Ísland til fyrirmyndar þegar kæmi að fjarskiptum. Mikil og góð fjárfesting og uppbygging á sviði fjarskipta hefði skilað sér.

Nefndi hann sérstaklega árangur af því að tengja sveitir landsins þegar kæmi að fjarskiptakerfum. Ísland væri strjálbýlt land en árangurinn sem náðst hefði merkilegur í því ljósi. Sigurður Ingi þakkaði fyrir viðurkenninguna og hrósaði íslenskum fjarskiptafyrirtækjum fyrir vinnu sína.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, hélt erindi um helstu áskoranir í fjarskiptum og netöryggismálum. Þar verði næsta áskorun innleiðing 5G. Þá sátu ráðherrann, Houlin Zhao og Hrafnkell fyrir vörum í pallborðsumræðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×