Umfjöllun og viðtöl: ÍR - Tindastóll | Stólarnir tóku aftur sigur í Seljaskóla

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson.
Sigtryggur Arnar Björnsson. Vísir/Eyþór
Tindastóll er kominn í 2-1 í undanúrslitaeinvígi sínu við ÍR eftir 69-84 sigur í þriðja leik í Seljaskóla í kvöld.

Heimamenn í ÍR voru í nokkrum vandræðum með að finna lausnir sóknarlega snemma leiks og komust Tindastólsmenn í ágæta forystu áður en Borche Ilievski tók leikhlé og kom sínum mönnum aftur inn í leikinn. Einu stigi munaði á liðunum eftir fyrsta leikhluta, staðan 24-23 fyrir ÍR.

Vandræði ÍR í sókninni tóku sig aftur upp í öðrum leikhluta og af mun meira mæli. Liðið skoraði aðeins fimm stig á fyrstu sex mínútum leikhlutans. Þeir náðu aðeins að setja körfur undir lokin og laga stöðuna, gestirnir í Tindastól leiddu 35-41 þegar flautað var til hálfleiks.

Í upphafi þriðja leikhluta átti ÍR 12-0 sveiflu sem kom þeim í þriggja stiga forystu. Eftir það var lítið sem skildi liðin að og munrinn varð ekki meiri það sem eftir lifði í leikhlutanum. Stólarnir fóru með tveggja stiga forskot inn í síðasta fjórðunginn og þá fór að halla undan ÍR.

Tindastólsmenn léku á hverjum fingri á meðan ekkert gekk hjá ÍR. Eftir aðeins tvær mínútur í fjórða leikhlutanum var munurinn orðinn 11 stig og þá var sagan öll. ÍR náði aldrei að koma til baka á meðan skotmennirnir hjá Tindastól settu þrista eins og þeir fengu borgað fyrir það.

Að lokum fór svo að Tindastóll sigraði með 15 stigum, 69-84.

Afhverju vann Tindastóll?

Baráttan var meiri í Tindastólsliðinu svo gott sem allan leikinn en það var sérstaklega áberandi undir lokin. Skagfirðingarnir köstuðu sér á alla bolta á meðan ÍR-ingar voru passívir þegar þetta hefði átt að vera öfugt þar sem ÍR þurfti að koma til baka í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Sigtryggur Arnar Björnsson var frábær á loka metrunum hjá Stólunum. Hann leiddi liðið í baráttunni og eins og svo oft áður skaut hann niður þristum eins og enginn væri morgundagurinn. Þá var Antonio Hester mjög öflugur að vanda.

 Þó verður að minnast á að vítanýting Hester var hörmuleg í kvöld, hann hitti 9 af 17.

Í ÍR liðinu var það helst Danero Thomas sem stóð upp úr. Matthías Orri Sigurðarson skilaði ágætu framlagi eins og oftast, en var ekki eins áberandi og oft áður.

Hvað gekk illa?

Það má segja að endurkoma Ryan Taylor hafi verið ólán í láni, ef hægt er að snúa orðatiltækinu við. Taylor er frábær leikmaður, það verður ekki deilt um það, en hann virkaði ekki í leikformi og hann var út úr takti við liðsfélaga sína. Þegar hann var í banni þá þurfti ÍR liðið að stíga upp og sína að þeir væru ekki eins manns lið, sem þeir gerðu, og það gekk brösulega að finna taktinn með Taylor aftur.



Hvað gerist næst?

Leikur fjögur verður í Síkinu á Sauðárkróki á föstudaginn. Þar geta Stólarnir sent ÍR í sumarfrí og tryggt sæti sitt í úrslitunum eða ÍR knýr fram oddaleik.

ÍR-Tindastóll 69-84 (24-23, 11-18, 18-14, 16-29)

ÍR:
Danero Thomas 24/5 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 18/5 stoðsendingar, Ryan Taylor 13/12 fráköst/4 varin skot, Kristinn Marinósson 5, Sveinbjörn Claessen 4/9 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 3, Trausti Eiríksson 2.

Tindastóll: Antonio Hester 31/14 fráköst/4 varin skot, Sigtryggur Arnar Björnsson 24/4 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir, Pétur Rúnar Birgisson 14/5 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 5/7 fráköst, Helgi Rafn Viggósson 4/4 fráköst, Viðar Ágústsson 3, Axel Kárason 3/9 fráköst.

Isreal: Vörnin tryggði sigurinn

„Stigataflan talar sínu máli. Þetta var varnarleikur,“ sagði Isreal Martin, þjálfari Tindastóls, aðspurður hvað honum hafi fundist um leikinn.

„Við vorum mun aggressívari heldur en í leik tvö. Vörnin kom okkur yfir í dag, þeir skora bara 69 stig. Þá kemur sóknarleikurinn að sjálfum sér.“

„Við spiluðum mjög hart. Þeir spiluðu líka mjög hart þegar þeir komu á Sauðárkrók. Þessi sería er ekki búin, þeir eru með mjög gott lið sem hefur verið á toppnum í allan vetur og munu vilja vinna okkur aftur.“

„Við þurfum að vera tilbúnir í líkamlega baráttu. Það er allt mjög jafnt í þessu, þetta eru undanúrslitin,“ sagði Isreal Martin.

Borche: Tengingin við Ryan ekki til staðar

„Það fór allt úrskeiðis hjá okkur í dag. Við fylgdum ekki leiksskipulaginu, Tindastóll spilaði mjög aggressívt og við fundum ekki lausnir,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR.

Hann tók undir það að Ryan Taylor hafi ekki fundið sig í leiknum í kvöld.

„Hann er ekki í leikformi, sem er eðlilegt. Tengingin milli Ryan og annara leikmanna var ekki til staðar og það er eðlilegt.“

„Við þurfum að komast betur í takt við leikinn í næsta leik, það hefur sýnt sig í þessari seríu að heimavallarrétturinn skiptir engu máli.“

Borche var einnig sammála því að Tindastóll virtist einfaldlega hafa viljað sigurinn meira.

„Mínir leikmenn þurfa að horfa á þennan leik og sjá hvernig þeir eiga að haga sér í leik í úrslitakeppninni.“

„Við þurfum að gera eitthvað í skipulaginu okkar,“ sagði Borche Ilievski.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira